Á fundi heiðursveitinganefndar og aðalstjórnar Breiðabliks í desember var einróma samþykkt að sæma Böðvar Örn Sigurjónsson nafnbótina Heiðursbliki sem er æðsta viðurkenning félagsins fyrir framúrskarandi starf í þágu félagsins.

Það voru Sveinn Gíslason, formaður Breiðabliks, og Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, sem heimsóttu Böðvar á heimili hans í dag og afhentu honum viðurkenninguna að viðstöddum fjölskyldumeðlimum.

Böðvar Örn sem hefur unnið mikið og gott starf fyrir félagið alla tíð. Hann er nú formlega að láta af störfum í dag, síðasta dag ársins 2020, sem læknir knattspyrnudeildar, en hann hefur gegnt því undanfarin tólf ár.

Meðfylgjandi er umsögn um Heiðursblikann Böðvar Örn:

 

Böðvar Örn Sigurjónsson hefur verið viðloðandi Breiðablik, lengi sem foreldri í frjálsum íþróttum og formaður frjálsíþróttadeildar um hríð. Þá var hann einnig formaður afmælisnefndar Breiðabliks um tíma auk þess sem hann keppti ungur fyrir frjálsíþróttadeild félagsins. Síðustu tólf árin hefur hann gegnt umfangsmiklu starfi sem læknir knattspyrnudeildarinnar.

Böðvar Örn hefur unnið gríðarlega mikið og gott starf fyrir félagið og er hann bóngóður með eindæmum og hefur ávallt verið tilbúinn að leggja félaginu lið með almennri vinnu og einnig útfrá sinni sérfræðiþekkingu sem læknir en hann starfar einmitt sem slíkur í dag.
Það hafa ófáir iðkendur félagsins fengið sérfræðiráð frá Böðvari en hann hefur m.a. skrifað uppá Leyfiskerfi KSÍ fyrir Knattspyrnudeild félagsins sem læknir liðsins s.l. 12 ár og hefur hann framkvæmt allar læknisskoðanir fyrir samningsbundna leikmenn á þeim tíma.

Þá hefur hann ávallt tekið vel í að aðstoða þegar leitað hefur verið til hans með Evrópuleiki félagsins í knattspyrnu og m.v. þær kröfur sem gerðar eru um aðkomu lækna í dag á leikjum í Evrópukeppninni hefur hann stundum komið með hálfa Salastöðina sína hér og opnað hálfgert útibú á Kópavogsvelli þegar þeir leikir hafa farið fram.

Nú er komið að ákveðnum kaflaskilum hjá Böðvari en hann hefur ákveðið að láta gott heita og hætta sem formlegur læknir félagsins. Öll vinnan hans fyrir félagið hefur verið sjálfboðastarf og unnið af hugsjón eins og hjá svo mörgum sem koma að starfi félagsins.

Breiðablik á Böðvari margt að þakka fyrir hans frábæra og mikla framlag til félagsins í gegnum tíðina.

Böðvar Örn Sigurjónsson er sannkallaður Heiðursbliki.