Birna Kristín Kristjánsdóttir setti um helgina nýtt stúlknamet í langstökki 18-19 ára þegar hún stökk 6,01 m á Reykjavík International Games.
Það er óhætt að segja að Birna Kristín komi sterk til baka, en hún hefur undanfarna mánuði glímt við erfið meiðsli. Keppnin um helgina var hennar fyrsta langstökkskeppni síðan hún náði sér af meiðslunum og gefur góða von fyrir komandi innanhústímabil.
Það verður spennandi að fylgjast með hvað þessi unga afrekskona gerir á næstu vikum, en næsta mót hjá henni er Meistaramót Íslands í fjölþraut sem fer fram 20.-21. febrúar næstkomandi.