Sumarið byrjar vel hjá Blikum

Það hefur verið mikill gangur í starfi Frjálsíþróttadeildar Breiðabliks undanfarin misseri og hefur árangurinn ekki látið standa á sér. Eftir vægast sagt „gott mót“ á innanhúss tímabilinu hjá öllum aldursflokkum byrjar sumarið vel hjá yngri flokkum Blika.

Vormót Fjölnis var haldið í gær, fimmtudaginn 4. júní á Kaplakrikavelli fyrir krakka á aldrinum 11-15 ára. Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki skartað sínu fegursta mættu hátt í 30 keppendur frá Breiðablik og er óhætt að segja að þau hafi staðið sig vel, innan vallar sem utan. Græni liturinn var áberandi á verðlaunapallinum allt mótið og hlaut hópurinn samtals 25 verðlaun, langflest þeirra félaga sem kepptu, 8 gull, 8 silfur og 9 brons. Ásamt þessu voru 37 persónulegar bætingar sem telja ekki síður en medalíur.

Verðlaunin eru of mörg til að telja þau öll upp hér og verður því aðeins stiklað á stóru en heildarúrslit mótsins má nálgast hér: https://bit.ly/3z4GIiT8

Í flokki 11 ára stúlkna hlaut Bryndís María Jónsdóttir þrenn gullverðlaun í langstökki, kúluvarpi og 600 m, og svo silfur í 60 m. Gunnar Bergvin Árnason sigraði svo langstökk 11 ára pilta með stökki upp á 4,10 m.

Í 100 metra hlaupi 12-13 ára pilta voru fyrstu 6 sætin græn og hlýtur það að teljast frábær árangur. Gullið hlaut Jacques R. S. Borges Schmitt, silfrið Patrekur Ómar Haraldsson og bronsið hlutu þeir Daniel Gonzalez Barron og Ragnar Sveinn Guðmundsson. Þar á eftir fylgdu þeir Guðmundur Jón Hannibalsson og Gunnar Þór Guðmundsson. Þessir strákar létu einnig til sín taka í fleiri greinum og sigraði Guðmundur Jón langstökkið með stökki upp á 4,46 m og Patrekur Ómar tók gullið í 800 m.

Bjarney Hermannsdóttir fór þrisvar á pall í flokki 12-13 ára stúlkna þar sem hún sigraði kúluvarp með kasti upp á 11.43, rúmum metra lengra en annað sætið. Hún tók svo bronsið í langstökki og silfrið í 100 m.

Elízabet Rún Hallgrímsdóttir fór einnig þrisvar á pall í flokki 14-15 ára stúlkna en hún hlaut silfur í langstökki, og brons í bæði 100 m og kúluvarpi.

Það er ljóst að framtíðin er björt og það verður spennandi að fylgjast með í sumar.