Á fimmtudaginn næstkomandi, 9.september kl.17:00, spilar Breiðablik einn stærsta knattspyrnuleik í íslenskri félagsliðasögu.
Andstæðingurinn er króatíska meistaraliðið Osijek.
Um er að ræða seinni leik liðanna í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu en fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli ytra.
Sigurvegurinn úr þessu einvígi tryggir sér heila sex leiki í viðbót í 16 liða úrslitum keppninnar.
Um er að ræða fjóra fjögurra liða riðla þar sem spilað er heima og að heiman frá október og fram í desember.
Þetta leikjafyrirkomulag er algjörlega nýtt af nálinni kvennamegin en hefur verið notað í mörg ár karlamegin.
Það væri gríðarlega stór áfangi fyrir íslenska knattspyrnu að eiga fulltrúa í þessari nýju riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem inniheldur 16 af bestu liðum Evrópu!
Mögulegir andstæðingar eru félög á borð við Barcelona, Real Madrid, Manchester City, Paris Saint-Germain, Bayern Munich, Juventus, Arsenal, Chelsea og Lyon.
Stelpurnar okkar eru tilbúnar að skilja allt eftir á vellinum!
Ert þú tilbúin/nn í að skrifa knattspyrnusöguna með þeim?
Mætum á völlinn og styðjum stelpurnar í þessum mikilvæga leik!
Breiðablik – Osijek á Kópavogsvelli þann 9.september kl.17:00