ÍSLM CX

Íslandsmótið í cyclocross fór fram um helgina á skemmtilegri og krefjandi braut í Gufunesi en fyrstu tvö bikarmót haustsins fóru fram þar í október. Breiðablik átti nokkra keppendur á mótinu, þar á meðal Ingvar Ómarsson og Björgu Hákonardóttur sem unnu síðasta bikarmótið fyrir tveimur vikum. Þau héldu uppteknum hætti og sigruðu bæði meistaraflokkana. Ingvar sigraði eftir harða keppni við Dennis van Eijk úr Tindi sem leiddi keppnina fyrstu tvo hringina þar til Ingvar náði framúr og svo byggði hann upp 2-3 sek forskot á hverjum hring eftir það. Í kvennaflokki tók Björg forystuna á 1. hring og hélt henni út keppnina en var alltaf með pressu frá Bríet Kristý úr Tindi sem varð önnur. Elín Kolfinna Árndóttir varð 3. og jafnframt Íslandsmeistari í flokki U23. Þess má svo geta að harðjaxlinn Kristrún Lilja Daðadóttir vann M50 flokkinn. Það var því tvöfaldur sigur hjá Breiðablik í meistaraflokki sem hefur ekki gerst á Íslandsmóti í hjólreiðum síðan árið 2018 þegar félagið vann tvöfalt í tímatöku.