Nú þegar farið er að grænka á trjám og túnum í Kópavogi má sjá Smárann, Fífuna og Fagralund taka á sig enn líflegri blæ. Sumarið er komið!

Fyrir okkur fótboltaunnendur er þetta vafalaust besti tími ársins þar sem daginn lengir og hægt er að vera úti á velli fram eftir öllu. Að því tilefni sendi ég hér smá sumarkveðju.

Á seinasta tímabili (2021) léku 11 stúlkur erlendis sem héldu út í atvinnumennsku frá Breiðablik. Í efstu deild kvenna léku 10 stúlkur með öðrum liðum en Breiðablik sem spiluðu upp yngri flokka með félaginu okkar.
Á síðastliðnu tímabili fóru fjórar uppaldar Blikastúlkur út í atvinnumennsku til stórra erlendra félaga og núna leika 14 leikmenn erlendis sem fóru frá Breiðablik erlendis. 29 stúlkur komu við sögu hjá Augnablik í næstefstu deild kvenna, þar af 27 stelpur sem hafa leikið allan sinn feril með Breiðablik. Þar að auki léku 6 Blikastúlkur í Lengjudeildinni með öðrum félögum en Augnablik.

Á árinu 2021 léku 23 drengir erlendis sem fóru ytra í atvinnumennsku frá Breiðablik. Í efstu deild karla léku 17 drengir sem hafa farið í gegnum barna- og unglingastarf Breiðabliks á sinni vegferð. 21 drengur lék í Lengjudeildinni, næstefstu deild sem einnig hafa farið í gegnum barna- og unglingastarf Breiðabliks.

Í 27 manna hópi meistaraflokks kvenna sumarið 2022 eru 11 uppaldar Blikastelpur en einnig komu við sögu 4 aðrar stelpur úr 2. og 3. flokki félagsins í Lengjubikarnum nú í vor sem munu í sumar spila með Augnablik.

Í 25 manna hópi meistaraflokks karla sumarið 2022 eru 15 leikmenn sem hafa farið í gegnum barna- og unglingastarf Breiðabliks. Í Lengjubikarnum í vor komu við sögu 4 aðrir drengir úr 2. flokki félagsins.

Það er því ljóst að Breiðablik heldur áfram að búa til efnilega leikmenn fyrir bæði Breiðablik og önnur félög hvort sem er hérlendis eða erlendis og erum við stolt af því.

Undanfarnar vikur hafa Íslandsmót í 2.-5. flokki hafist og í ár leika 55 lið undir merki Breiðabliks í Íslandsmótum karla og kvenna í 2.-5. flokki.

Þessi fjöldi liða hefur í för með sér gríðarlegt magn leikja og frá vori og fram á haust leika þessi lið Breiðabliks í heildina um 730 leiki í Íslandsmótum um land allt. Þar af er um helmingur leikjanna á heimavöllum Breiðabliks víðs vegar um Kópavoginn.

Þeir leikir sem leiknir eru á heimavöllum Breiðabliks eru einnig dæmdir af dómurum sem félagið þarf að útvega. Dómarar eru ýmist eldri iðkendur, foreldrar eða aðrir sjálfboðaliðar og það er ærið verkefni að manna dómgæslu á leiki félagsins yfir sumartímann. Ég vil því hvetja sérstaklega foreldra í Breiðablik til að rétta fram hjálparhönd í dómgæslunni.

Hægt er að hafa samband við Hermann Óla Bjarkason en hann sér um að manna dómgæslu hjá félaginu í sumar (hermann@breidablik.is).

Í 2. – 8. flokki karla og kvenna eru nú skráðir 1663 iðkendur í knattspyrnudeild Breiðabliks. Um er að ræða fjölmennustu knattspyrnudeild landsins.
Hjá deildinni starfar fjölbreyttur hópur fólks sem ýmist sinnir skipulagi, rekstri og ekki síst þjálfun iðkenda Breiðabliks. Við erum afar stolt af þjálfarahóp félagsins sem sinnir okkar mikla fjölda iðkenda af alúð og metnaði.

Mikilvægi sjálfboðaliða verður hins vegar seint ítrekað nægilega mikið. Þetta á ekki einungis við um stóru mótin sem við höldum, t.d. Símamótið og Ali mótið þar sem við þurfum að manna fleiri hundruð vaktir með sjálboðaliðum, heldur líka smærri mót þar sem manna þarf vaktir liðstjóra og gististjóra svo fátt eitt sé nefnt.

Breiðablik hefur sem betur fer haft gæfu til að fá til liðs við sig á hverju ári frábæran hóp umsjónarmanna sem halda utan um sína flokka en gleymum ekki að það þarf fleiri hendur á dekk þegar stór verkefni koma til. Við hvetjum því alla foreldra til að grípa sínar vaktir og styðja við umsjónarmenn þegar kemur að þessum stóru verkefnum því að allt snýst þetta auðvitað um að gera mótin og utanumhaldið sem best úr garði fyrir börnin okkar.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að því miður höfum við lent í þeirri stöðu að ekki hefur fengist  foreldri til að gista með sínu liði sem gerir þá það að verkum að það lið getur ekki notið þeirrar gleði og ánægju sem felst í að gista með sínu liði í skólanum með tilheyrandi sorg fyrir það lið.

Ég vil hvetja alla sem vilja koma spurningum eða ábendingum á framfæri að hafa beint samband við mig (isleifur@breidabliks.is) og ég lofa skjótum og öruggum viðbrögðum.
Orð eru til alls fyrst og mitt hlutverk er að hlusta á foreldra og iðkendur og gera gott starf hjá barna- og unglingaráði Breiðabliks enn betra í framtíðinni.

 

Áfram Breiðablik!

 

Ísleifur Gissurarson, deildarstjóri barna- og unglingaráðs