Nú er keppnistímabilið hér heima hálfnað og það hefur gengið mjög vel hjá Ingvari Ómarssyni. Hann varð Íslandsmeistari bæði i tímatöku og götuhjólreiðum í lok júní í keppnum sem fóru fram á Akureyri og við Mývatn. Ingvar er þá núverandi Íslandsmeistari í 5 greinum hjólreiða sem er einstakt afrek. Ingvar varð fyrst Íslandsmeistari árið 2012 í fjallahjólreiðum og varð 12 sinnum Íslandsmeistari til ársins 2017 með hjólreiðafélaginu Tindi sem hann stofnaði ásamt öðrum. Ingvar er búinn að hjóla með Breiðablik síðan 2018 og hefur orðið 17 sinnnum Íslandsmeistari síðan þá og er því samtals kominn með 29 Íslandsmeistaratitla. Næstu mót hjá Ingvari eru Vesturgatan um næstu helgi og Íslandsmeistaramótið í fjallahjólreiðum í næstu viku. Ingvar fer síðan í fjögurra daga UCI fjallahjólakeppni í Þýskalandi í byrjun ágúst og verður svo áfram þar til að taka þátt í Evrópumeistarmótinu í götuhjólreiðum og tímatöku. Ingvar er núna númer 77 á heimslistanum í maraþon fjallahjólreiðum og var hæst á topp 50 í byrjun árs. Ingvar mun keppa á heimsmeistaramótinu í maraþon fjallahjólreiðum í september og getur þá bætt stöðu sína aftur á heimslistanum.