Ingvar á EM

Ingvar Ómarsson keppti í vikunni á Evrópumeistaramótinu í götuhjólreiðum í Munchen og náði ótrúlegum árangri.  Götuhjólakeppnin (210km) fór fram á sunnudaginn og til útskýringa fyrir þau sem ekki þekkja til að þá eru keppendur teknir út úr keppninni ef þeir missa af fremsta hópi og fá því ekki að klára. Stundum eru innan við 25% keppenda sem fá að klára keppni. Til samaburðar þá eru mjög rúmleg tímamörk sem fólk hefur t.d. til að klára maraþonhlaup og enginn tekinn úr keppni þó viðkomandi sé kominn ákveðið langt á eftir þeim sem leiðir hlaupið. En til að gera langa sögu stutta þá náði Ingvar að klára keppnina og var einungis um 3,5 mínútum á eftir sigurvegararanum og það þrátt fyrir að hafa sprengt dekk í keppninni. Ingvar keppti svo í gær í tímatökuhlutanum á sama móti og varð í sæti númer 30. Hér fyrir neðan er frásögn Ingvar frá götuhjólakeppninni.

—>
Evrópumeistaramótið í götuhjólreiðum
Einu sinni á ári gefst tækifæri til að mæta í alþjóðlega götuhjólakeppni og gera sitt besta fyrir land og þjóð, á EM. Ég greip tækifærið í fyrra og mætti til Ítalíu í fínum hópi, og upplifði þar það sem margir hafa kallað erfiðustu braut á þessu keppnisstigi, frá upphafi. Í því móti sá ég og prófaði ýmislegt nýtt, en byggði einnig á margra ára reynslu af alþjóðlegum keppnum í öðrum greinum. Ég kláraði ekki þá, og strax eftir mótið var ég staðráðinn í að ég myndi reyna aftur.
Að klára svona mót er skrýtið markmið þegar ég er farinn að stefna á top 10 í mörgum erlendum keppnum á fjallahjólinu, ásamt því að sitja stundum í top 50 á heimslista í sömu grein. En götuhjólreiðar eru öðruvísi og þá sérstaklega á alþjóðastigi. Ef maður horfir á startlista fyrir slíkt mót er maður kominn ansi langt niður þann lista þegar maður þekkir ekki lengur nöfnin úr sjónvarpi eða fréttum, og það skín í gegn að þarna eru bestu menn í heiminum mættir til að gera sitt besta. Á maður heima á svona háu stigi í sportinu? Á maður nokkuð erindi í svona erfitt mót? Það er stóra spurningin í mínum huga, og það sem ég vil fá svar við og staðfestingu á því hvort ég er nógu góður til að vera “einn af þeim”.
Mótið var hér í Munchen í Þýskalandi, 210km löng leið með frekar löngum byrjunarhluta um smábæina í nágrenni borgarinnar, og svo 13km löngum lokahring í miðbænum sjálfum, sem var hjólaður 5 sinnum. Veður var gott en þó heitt, með 30 gráður mestallan daginn og mest 34 gráður, og sól allan tímann. Ég var með frábært stuðningslið í Mikael Schou og Margrét Arna Arnardóttir, sem sáu um allt fyrir mig en þar stóð upp úr það sem öllu máli skiptir fyrir 5 tíma langa keppni í erfiðum aðstæðum: að fá mat og drykk á lykilstöðum. Þar að auki fengum við aðstoð frá Danska liðinu sem réttu mér brúsa úr bílnum á leiðinni, sem var mikil hjálp. Mikki og Margrét Arna voru svo á mikilvægri drykkjarstöð fyrir miðja keppni, og í lokahringnum í bænum.
Við fórum rólega af stað frá Murnau sem er lítill bær suðvestan við Munchen, og um leið og keppninni var sleppt lausri stungu tveir sterkir af sem hjóluðu á undan hópnum mestallan daginn, áður en þeim var náð í bæjarhringnum, þegar sprettaraliðin byrjuðu að stilla upp sínum mönnum fyrir sigurinn. Upp fyrstu brekku sem var 5km löng var hjólað þétt, en ekki af mikilli hörku. Þetta dugði mér og ég fann að mér leið vel í hópnum þarna, missti engann fram úr mér og hélt minni stöðu. Mín staða í svona hóp, verandi einn í liði, er frekar aftarlega en ekki aftast. Það er nauðsynlegt að vera hluti af hópnum til að spara orku og halda uppi sama hraða, en hversu framarlega ég er breytir ekki öllu um hversu vel ég er staðsettur. Ég hugsaði mikið um að reyna að vera í svona sirka síðasta fjórðung af hópnum, og passa að vera aldrei aftastur nema þegar mér leið vel þannig, og var aldrei í hættu að missa af neinu. Eftir brekkuna var hjólað fram hjá fallegu vatni, og svo tók við skemmtilegur 50km langur kafli sem vísaði allan tíman örlítið niður á við. Það gaf góðan hraða og líka tækifæri til að rétta upp hönd til að fá Danska bílinn til mín með nýja brúsa. Ég hugsaði á þessum tímapunkti hvað það er mikið lúxuslíf að geta gefið sér tíma til að skoða brúsana, fá nýja, og athuga hversu mörg gel eru í vösunum og jafnvel spjalla við aðra hjólara, eins og Toms Skujins og Michael Morkov. Aldrei gerist svona í fjallahjólakeppnum þannig að ég naut þess í botn að fá smá tíma til að slaka á og drekka inn þessa upplifun að vera á stórmóti og líða vel með það.
Einn gríðarlega mikilvægur kafli í brautinni kom um miðjuna, þegar 900 metra löng brekka stóð frammi fyrir hópnum í 18% halla. Þetta þýddi ca 500 vött á 3 mínútum, í 32 gráðum og sól. Hópurinn kom þarna að brekkunni og ég var þægilega staðsettur með örugglega 10 manns fyrir aftan mig, og ég hélt minni stöðu alla leið upp brekkuna en hafði auðvitað ekki hugmynd um hvað Matteo Trentin og vinir voru að bauka fremst þegar átti að keyra upp hraðann rétt fyrir mikilvæga drykkjarstöð. Þegar á toppinn var komið kom stuttur og hraður kafi að drykkjarstöðinni og það má ekki skafa af því að þarna var ekkert verið að hvíla neitt. Ég þurfti að halda keðjunni strekktri eins og Thomas Skov Jensen myndi segja, til þess eins að hanga í hópnum sem leit meira út eins og fínasta halarófa á þessum tímapunkt. En að drykkjarstöinni fórum við og þar greip ég kalt vatn til að kæla mig hjá Margréti Örnu og stuttu seinna, nú heimsfrægann poka merktann Írlandi hjá Mikka. Það var enginn Guinness í pokanum en þarna voru mikilvægir drykkir og matur því ekkert annað var að fá næstu 50km að bænum, þannig að þetta mátti ekki klikka. Nokkrum metrum fyrir framan mig voru Zdenek Stybar og Ítalía áfram að valda usla fremst í hópnum og voru ekki vel séðir hjá mörgum fyrir að gera árás í gegn um drykkjarstöð, og vinur minn án þess að vita það hann Eddy Dunbar hjá Írlandi mætti fremst og kældi menn aðeins niður.
Það var ekki jafn svalt loftið hjá mér en ég var síðasti maðurinn í þessum hóp og rétt missti af keðjunni eins og sjá má á Eurosport á klst 2:40! Þarna var ég kominn í vond mál og upplifði það sem er erfitt við svona keppnir, sem er að ef ég er á röngum stað á röngum tíma, þarf ég ekki bara aðeins fleiri vött en hópurinn til að ná honum aftur heldur að því virðist tvöfalt meira. Það eru afskaplega þröng skekkjumörk í svona keppni þegar 140 manna hópur hjólar á 50kmh, og ef maður fjarlægist hópinn aðeins of mikið verður það nánast ómögulegt að komast aftur til baka, slíkur er hraðinn og vindmótstaðan sem maður tekur á sig einn síns liðs. Þarna hugsaði ég að dagurinn gæti verið að klárast fyrir mig en ekki séns að ég sætti mig við það, þannig að ég hjólaði eins hratt og ég gat, með blessaðan Írska pokann vafinn utan um mig eins og fallhlíf. Ég veit að hópurinn hægði eitthvað á sér fyrir framan mig, sem gaf mér smá séns, en það var ekki fyrr en ég gat hjólað uppi fylgdarbílana fyrir aftan hópinn sem ég gat byrjað að klóra mig til baka. Ég hef litla sem enga reynslu af því að hjóla í kring um fylgdarbíla þannig að þarna kom sjónvarpsglápið sterkt inn, þannig að ég hoppaði á milli bíla og var í skjóli af þeim til skiptis, þar til ég náði að hendast fram úr dómarabílnum og beint inn í hópinn aftur. Deginum bjargað og ekki í síðasta sinn.
Eftir þetta tók við annar langur kafli þar sem var einfaldlega hjólað sem einn risastór hópur á ca 42kmh, inn í Munchen þar sem klárt mál var að lætin myndu byrja. Ég spjallaði aðeins við félaga úr Danska liðinu sem sagði mér að þetta yrði þétt keyrsla þar til síðustu 3 hringina í bænum, og þá væri skrúfað í botn fyrir sprettarana. Við hjóluðum inn í bæinn og inn í gríðarleg læti í áhorfendum sem gefur alltaf 5-15 auka vött, en einnig fann ég fyrir meira stressi og óöryggi í hópnum þar sem vegir þrengdust og rimlahlið voru allan hringinn. Það var að minnsta kosti 4 sinnum sem hópurinn þurfti að snarhemla út af einhverju, og þá þurfti aldeilis að vera með viðbrögð undir 100 millisekúndum til að klikka ekki. Eitt af þeim verstu var þegar Pascal Ackerman hjólaði utan í rimlahlið og flaug á hausinn, og allur hópurinn fyrir aftan snarbremsaði til að forða sér frá því að elta manninn í malbikið. Ég sat þarna beint fyrir aftan heimsmeistarann í tímatöku, Filippo Ganna, og get svo svarið það að ef ég hefði ekki haldið hjólinu uppréttu í skransi á báðum dekkjum, þá væri ég búinn að stimpla mig inn í afturendann á honum og örugglega á forsíðunni á La Gazzetta dello Sport sem fávitinn sem endaði keppnistímabilið hans.
En hvað um það. Eftir að við hjóluðum hálfan hring og yfir marklínuna voru 5 heilir hringir eftir. Ég veit að ef ég kemst inn á lokahringinn, þá fæ ég að klára, sama hvað. Verð ekki fyrir neinum og get ekki látið hringa mig. Þetta skipti öllu máli í heiminum þarna og ég ætlaði ekki að sleppa takinu á þessu markmiði. Eftir fyrri helming af fyrsta hring hjóluðum við í kring um styttuna af friðarenglinum, og ég fann að ég var með sprungið að aftan. Þarna kom yfirvegunin eftir mörg ár í sportinu mér vel og ég einfaldlega færði mig til hliðar, horfði aftur fyrir mig á alla fyrir aftan mig taka fram úr, stoppaði og rétti upp hönd og benti á afturdekkið. 10 sek seinna var bíll frá Vittoria sem sáu um hlutlausa aðstoð í keppninni mættur og hann skipti um afturgjörðina fyrir mig og hrinti mér af stað. Þarna voru 30-40 sek farnar á eftir hópnum og alveg hægt að hugsa sér að dagurinn væri búinn, aftur. Ekki séns. Ég veit ekki hversu hratt ég hjólaði á eftir fylgarbílunum því ég var mjög nálægt því að missa af aftasta bíl, en sem betur fer tókst að ná þeim og þá tók við einn mest spennandi eltingaleikur sem ég hef átt. Skoppað á milli bíla sem sumir hjálpuðu með því að leyfa mér að hjóla í skjólinu og héldu uppi hraða sem ég réði við, og sumir ekki (ég er að horfa á ykkur, Belgía). Skemmtilegasta augnablik dagsins var svo stuttu seinna þegar ég kláraði þennan fyrsta hring og fór yfir marklínuna fram hjá rosalega mörgum áhorfendum, aleinn og á fullri ferð á eftir hópnum. Það sem ég heyrði fagnað á meðan ég fór framhjá, alveg magnað. Áfram hélt ég og byrjaði fljótlega að sjá öftustu menn, og vissi að ég væri að fara að ná þessu ef ég gæti haldið áfram að hjóla svona. Það tók hálfan hring að ná hópnum, eða um 9 mínútur á 50kmh, og þegar ég mætti þangað var ég orðinn vel þreyttur og hugsaði að ég myndi þurfa að halda haus og fókusa vel til að missa ekki af þeim strax aftur út úr einhverri beygju.
Ég náði mér aftur á strik og fann að lappirnar voru ekki alveg búnar, þannig að með hópnum hjólaði ég næstu hringi. Á næstsíðasta hring var orðið áberandi að liðin voru farin að brenna sínum sterkustu mönnum til að bæta í hraðann (og ná þeim sem voru búnir að hjóla fremst allan daginn) þannig að það varð extra erfitt að spretta út úr öllum beygjum og loka bilum á beinum köflum í meðvindi. Ég tók eftir því að það voru menn byrjaðir að hætta keppni, hvort sem það var út af þreytu eða einfaldlega því þeir voru búnir að sinna sínum störfum fyrir sitt lið og voru ekki lengur gagnlegir fremst. Þegar síðasti hringur var tæplega hálfnaður var ég því miður á röngum stað þegar ca 5 keppendur fyrir framan mig slepptu takinu á stóra hópnum og leyfðu þeim að hjóla í burtu. Ég komst ekki strax fram úr þeim og þegar tækifærið gafst þá var orðið of seint að loka bilinu þannig að ég hægði á mér með þeim, sáttur við að vera ennþá í keppninni með minna en einn hring eftir. Þá þurfti bara að klára daginn, hjóla í mark og njóta þess að hafa klárað þetta stórmót, og það ekki einu sinni aftastur. Ég var hluti af hópnum, átti heima þarna og gerði mitt besta þrátt fyrir nokkur erfið augnablik. Það er ekki frábært að hjóla svona keppni án liðsfélaga en þetta er bara upphafið fyrir Ísland og við verðum bara stærri og sterkari á næstu árum. Ótrúleg upplifun að fá að taka þátt í þessu verkefni og ég get ekki verið stoltari af því að klára fyrir hönd Íslands!
Ég þakka HRÍ fyrir að skipuleggja ferðina, Mikka og Margréti Örnu fyrir að aðstoða með allt í heiminum hérna, og öllum sem fylgdust með hérna í Munchen eða heima í stofunni. Það var mjög gaman að heyra frá öllum og taka við hamingjuóskum, og kom skemmtilega á óvart hversu margir heima fylgdust með í beinni útsendingu. Takk!