Hjólreiðafólk ársins hjá Breiðablik eru Björg Hákonardóttir og Ingvar Ómarsson.

Björg varð Íslandsmeistari í cyclocross 2022. Hún er mjög fjölhæfur hjólari og keppti í götuhjólreiðum, fjallahjólreiðum og cyclocross. Hún lenti í óhappi á hjólinu í sumar sem kom í veg fyrir þátttöku hennar í 2 mánuði en kom svo sterk inn aftur í haust í cyclocross keppnirnar og stefnir á enn betri árangur á næsta ári. Þar að auki er Björg einstaklega hógvær og góður félagi.
Ingvar varð sexfaldur Íslandsmeistari á þessu ári sem er afrek sem er erfitt að sjá að nokkur muni ná að leika eftir á næstunni. Ingvar einbeitir sér þó að krefjandi keppnum í maraþonfjallahjólreiðum erlendis og náði hæst á topp 50 á stigalista UCI, Alþjóðahjólreiðasambandsinsa í þeirri grein á árinu. Fyrir utan UCI stigamótin erlendis þá keppti Ingvar einnig á Evrópumeistaramótinu í maraþon fjallahjólreiðum, tímatöku og götuhjólreiðum og á heimsmeistaramótinu í maraþon fjallahjólreiðum. Ingvar hefur fært keppnishjólreiðar á Íslandi upp um mörg stig og rutt brautina fyrir framtíðarhjólara landsins.
Hjólreiðadeild Breiðabliks er ákaflega stolt af þessu frábæra keppnisfólki og þakkar þeim fyrir þeirra mikilvæga framlag til félagsins og íþróttarinnar.