Í gærkvöldi, þann 9. nóvember 2022 fór fram aðalfundur knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Fundurinn var vel sóttur en á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf ásamt því að veittar voru viðurkenningar frá Heiðursnefnd Breiðabliks og meistaraflokkum.
Að lokum var svo yfirmaður knattspyrnumála, Ólafur Kristjánsson með stutt erindi fyrir fundargesti.

Tvær mannabreytingar urðu í stjórninni þegar Helgi Aðalsteinsson, varaformaður og Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna stigu til hliðar eftir farsæl störf fyrir félagið á fjölbreyttum vettvöngum. Knattspyrnudeild Breiðabliks er afar þakklátt fyrir þeirra störf og óskar þeim velfarnaðar í komandi verkefnum.
Bæði Helgi og Ingibjörg voru sæmd silfurmerki Breiðabliks sem veitt er félagsmönnum sem hafa unnið ötulst starf í þágu Breiðabliks um árabil. Þau eru sannir SilfurBlikar.

Heiðursnefnd Breiðabliks veitti einnig Björgvin Rúnarssyni silfurmerki fyrir ómetanlegt starf hans sem vallarþulur á Kópavogsvelli á leikjum meistaraflokka kvenna og karla.
Knattspyrnudeild þakkar Björgvin innilega fyrir störf sín – hann er óumdeild rödd Kópavogs og sannur SilfurBliki.
Það var Ásgeir Baldurs, formaður aðalstjórnar Breiðabliks sem veitti öllum SilfurBlikunum viðurkenningarnar á fundinum.

Tveir nýjir Blikar voru kjörnir í stjórn knattspyrnudeildar í stað Helga og Ingibjargar, þær Hekla Pálmadóttir og Erna Björk Sigurðardóttir. Knattspyrnudeild býður þær velkomnar til starfa!

Á fundinum var einnig veitt sérstök viðurkenning til þriggja drengja í 5. flokki sem hafa í sumar mætt á nær alla leiki meistaraflokka kvenna og karla og verið fyrirmyndar stuðningsmenn með trommur og tilheyrandi hrópum og köllum. Þau Ásta Eir Árnadóttir og Kristinn Steindórsson mættu og afhentu drengjunum verðlaunin undir miklu lófaklappi fundargesta.