Unglingameistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram í Kaplakrika um helgina.

Blikar voru í fanta formi og lönduðu hvorki meira né minna en 16 íslandsmeistaratitlum ásamt því að fjölmargar persónlegar bætingar litu dagsins ljós.

Þessi frábæri árangur skilaði félaginu þriðja sætinu í heildarstigakeppni mótsins en þess má geta að piltar 18-19 ára og stúlkur 20-22 ára sigruðu stigakeppni sinna aldursflokka.

Mótsmet í langstökki og þrístökki

Birna Kristín Kristjánsdóttir, sem er nýlega mætt aftur á brautina eftir stutt hlé, bætti mótsmetið í langstökki í flokki 20-22 ára með stökki upp á 5,97 metra. Fyrra metið var 5,95 sem Hildigunnur Þórarinsdóttir setti árið 2021. Birna var með fjögur önnur gullverðlaun á mótinu í 60m, 60m grind, hástökki og þrístökki og er því fimmfaldur Íslandsmeistari.

Guðjón Dunbar Diaquoi Þorsteinsson stórbætti einnig mótsmetið í sinni aðalgrein, þrístökki, í flokki 18-19 ára pilta. Hann stökk lengst 14,38 metra sem er einnig persónulegt met. Það var Viktor Logi Pétursson (Ármann) sem átti fyrra metið, 13,93 m. Guðjón sigraði einnig langstökk í sínum aldursflokki þar sem hann var með góða bætingu, en hann stökk 6.78 m.

Fjöldi bætinga og 16 íslandsmeistaratitlar

Hlauparinn Stefán Kári Smárason sigraði 1500 (04:27,8) og 3000 metra hlaup (09:32,7) pilta 20-22 ár með bætingum í báðum greinum. Bjarni Hauksson sigraði kúluvarp pilta 18-19 ára með bætingu og kasti upp á 14.98. Þorleifur Einar Leifsson kemur gríðarsterkur inn á þessu tímabili eftir meiðsl en hann sigraði 60 metra grind (8.47) og stangarstökk (4.00) pilta 18-19 ára, með bætingu í báðum greinum. Júlía Kristín Jóhannesdóttir sigraði 60 metra grindahlaup 18-19 ára stúlkna á tímanum 9,06 sek. og Jana Gajic sigraði þrístökk í sama aldurshópi með stökki upp á 10.57. Elízabet Rún Hallgrímsdóttir sigraði svo stangarstökk stúlkna 16-17 ára þegar hún fór yfir 2.70 m sem er persónulegt met. Þá sigraði sveit 18-19 ára pilta 4×200 m boðhlaup. Þar að auki hlutu Blikar 15 silfurverðlaun og 14 bronsverðlaun.

Heildarúrslit mótsins má sjá með því að smella hér

Breiðablik óskar öllum keppendum og þjálfurum innilega til hamingju með árangurinn.