Nú þegar styttist í sumarið og íslandsmótin fara að hefjast er gott að fara aðeins yfir nokkur atriði úr starfinu sem eru í gangi og framundan.

Besta deild karla hefst 10. apríl og þá fáum við nágranna okkar í HK í heimsókn á Kópavogsvöll. Besta deild kvenna hefst 25. apríl með útileik við Val.

Leikurinn við HK verður síðasti heimaleikur okkur á núverandi gervigrasvelli, en hafist verður handa við að skipta um gras 11. apríl nk. Þetta er nauðsynleg endurnýjun til að tryggja að völlurinn standist kröfur í Evrópukeppni. Það þarf því að færa eða víxla tveimur leikjum hjá strákunum meðan á framkvæmdum stendur og einum hjá stelpunum. Framkvæmdum á að vera lokið fjórum vikum síðar. Auðvitað er ekki gott að þurfa að fara í slíkar framkvæmdir á miðju tímabili en miklu skiptir að aðstæður séu eins hagstæðar og nokkur kostur er.

Báðir meistaraflokkarnir líta spennandi út og eru að ljúka undirbúningi. Strákarnir eru komnir úr æfingaferð og stelpurnar eru að fara í slíka ferð núna 24. mars. Við munum mæta til leiks í vor í nýjum keppnisbúningum frá Nike, en eins og fram hefur komið gerði knattspyrnudeildin samning við umboðsaðila þeirra um að sjá félaginu fyrir búningum. Við ætlum að opna verslun í Smáranum og er hönnun og undirbúningur á lokastigi. Þá eiga allir iðkendur og aðstandendur að geta nálgast búninga og aðrar Breiðabliksvörur á okkar félagssvæði. Fleira er á döfunni hjá okkur sem snýr að umgjörð leikja og aðstöðu sem kynnt verður þegar að því kemur.

Ég vil hvetja öll að fjölmenna á völlinn og hvetja okkar fólk, þau eiga það skilið eftir æfingar og erfiði vetrarsins og við getum öll stolt stutt okkar lið og notið knattspyrnunnar sem þau leika.

Um áramótin voru skráðir 1679 iðkendur í 2.-8. flokki hjá deildinni. Það er okkar hlutverk og skylda að sjá þeim öllum fyrir þjálfun og verkefnum við hæfi. En um leið búa í þessum hópi framtíðar leikmenn félagsins sem rækta þarf og styðja.

Að afar mörgu er að hyggja í rekstri fjölmennustu knattspyrnudeildar landsins, hvort sem þar er horft til fjárhagslegra þátta, uppeldishlutverks eða afreksstefnu. Til þess að það sé gerlegt koma að starfinu hundruðir sjálfboðaliða á margvíslegum póstum, styrktaraðilar og aðrir velunnarar. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim öllum fyrir stuðninginn um leið og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs og samvinnu. Sjáumst á vellinum og vettvangi félagsins í sumar.

Áfram Breiðablik!

Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks