Við erum að rifna úr stolti yfir árangri Blikahópsins okkar sem lét ekki votviðri helgarinnar á sig fá og vann samtals til 36 verðlauna á MÍ 11-14 ára. 14 gull, 13 silfur og 9 brons féllu í skaut okkar fólks sem skilaði þeim þriðja sæti í heildarstigakeppninni.

Blikinn Patrekur Ómar Haraldsson gerði sér lítið fyrir og setti mótsmet í 2000 m hlaupi 14 ára pilta á Meistaramóti Íslands 11-14, sem fer fram á Selfossi um helgina, þegar hann hljóp á tímanum 6:54,37.

Blikinn Eyrún Svala Gústavsdóttir fór á kostum á MÍ um helgina og setti mótsmet í 400 m hlaupi 12 ára stúlkna þegar hún hljóp á tímanum 66,89. Eyrún hlaut jafnframt silfurverðlaun í 60 m hlaupi, langstökki og hástökki.

Samúel Örn Sigurvinsson er þriðji Blikinn sem setti mótsmet á MÍ um helgina en hann sló metið í 300 m hlaupi 14 ára pilta þegar hann hljóp á tímanum 40,98. Samúel átti frábært mót og hlaut til viðbótar gull í 80 m, kúlu og kringlu, silfur í spjóti og þrístökki og brons í 80 m grind og langstökki.

14 ára piltar og 12 ára stúlkur sigruðu stigakeppnir í sínum aldursflokkum.

Við óskum öllum Blikum innilega til hamingju með frábæran árangur og þökkum um leið fyrir mikla samstöðu, gleði, hvatningu og kraft alla helgina.

Blikahjartað heldur áfram að stækka og saman erum við og verðum sterkari!