Blik í auga.
Okkur bárust þessar myndir frá Kristni Guðmundssyni sem var að vinna fyrir flugfélag í Congo, nánar tiltekið í Brazzavile.
Hann lét einnig fylgja með söguna af því hvernig þessar Breiðabliks búningar enduðu í Congo en á frídögum þá var iðulega farið og hjálpað til á munaðarleysingjaheimili sem staðsett er þar. Allsstaðar voru krakkar úti að leika sér og mjög algengt að sjá krakka við afar frumlegar aðstæður
spila fótbolta.
Þegar Kristinn kom heim til Íslands á milli vinnutarna hafði þá hafði hann samband við aðila sem áttu varning aflögu sem var jafnvel á leiðinni á sorpu og þótti ekki nægilega góður. Breiðablik ásamt fleiri aðilum lagði til Blika búninga og annan varning í þessa ferð hans.
Hann fór með þessa Breiðabliks búninga í hjólarúnt í Congo og gaf krökkum sem voru að leika sér í fótbolta. Eins og sjá má á myndunum eru aðstæður frekar frumlegar og veraldleg gæði ekki í takt við það sem þekkist á Íslandi.
Kristinn sagði orðrétt:
“Ég mun aldrei gleyma blikinu í augum þessa barna sem fengu búninga, skó og boltana. Þetta var kraftaverki líkast fyrir þau að eignast þessar vörur og flestir felldu tár þegar þau fengu þetta í hendurnar. Litlar gjafir sem gáfu ómælda gleði og hamingju. Takk Breiðablik fyrir að gleðja hjörtu í Afríku og gleðileg Jól”
Við segjum bara takk sömuleiðis Kristinn og gleðilega hátíð.