Uppskeruhátíð Frjálsíþróttadeildar Breiðabliks fór fram þann 27. desember og við það tilefni var frjálsíþróttafólk ársins heiðrað sérstaklega. Birna Kristín Kristjánsdóttir er frjálsíþróttakona ársins og Guðjón Dunbar Diaquoi er frjálsíþróttamaður ársins og óskum við þeim innilega til hamingju með verðskuldaða titla.

Birna Kristín er Íslandsmeistari kvenna í 60m grindarhlaupi innanhúss, auk þess sem hún er margfaldur aldursflokka- og bikarmeistari í fjölda greina. Í langstökki, sem er hennar aðalgrein, hefur hún átt mjög gott ár og stokkið margoft yfir 6 metra, og lengst stökk hún 6,11 m á árinu sem er aðeins einum sentimetra frá Íslandsmeti U23 í greininni. Birna Kristín tók þátt í tveimur landsliðsverkefnum á árinu, Evrópubikar landsliða og Smáþjóðaleikunum, þar sem hún hafnaði í 3. sæti í langstökki og 4. sæti í 100m grindarhlaupi. Birna Kristín stefnir á áframhaldandi bætingar þar sem meginmarkmiðið er að bæta Íslandsmet U23 í langstökki. Birna Kristín leitast alltaf við að vera góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur innan vallar sem utan sem er einstaklega dýrmætt fyrir deildina okkar.

Guðjón er ungur og efnilegur stökkvari og hefur látið til sín taka undanfarin ár í þrístökki og langstökki. Guðjón er algjörlega ósigraður í sínum aldursflokki á árinu og átti mjög gott innanhússtímabil með miklum bætingum í upphafi árs og stefndi allt í frábært sumar þegar hann meiddist í apríl. Þrátt fyrir að hafa lítið getað stokkið í sumar bætti Guðjón sig þó í langstökki í lok sumars og tók þátt í Norðurlandamóti U20 þar sem hann keppti í þrístökki í sameiginlegu liði Íslands og Danmerkur. Guðjón setur stefnuna á frekari bætingar á nýju ári þar sem stærsta markmiðið er að ná lágmarki á HM U20 sem haldið verður næsta sumar. Við höfum fulla trú á okkar manni og hlökkum til að hvetja hann áfram í komandi verkefnum.