Eitt stærsta mót vetrarins, Alimótið, fór fram helgina 19.-21. janúar. Þar komu saman um 700 knattspyrnudrengir frá 8 félögum í 5. Flokki karla í Fífuna, heimkynni Breiðabliks í Kópavogi. Spilaðir voru 250 leikir á 4 völlum alla helgina. Það má Gera má ráð fyrir að í heildina hafi um 3.000 manns heimsótt mótið og var mikið líf og fjör í kringum mótið.
Þetta er í fjórða skiptið sem Alimótið er haldið og hefur mikil ánægja ríkt með samstarfið hjá bæði Breiðabliki og Ali. Nýr samningur sem gildir til ársins 2026 var undirritaður síðastliðinn föstudag af Sveini Jónssyni, framkvæmdarstjóra Ali og Jóhanni Þóri Jónssyni, formanni Barna- og unglingaráðs Breiðabliks.

„Við hjá Ali erum stoltur stuðningsaðili Breiðabliks og það hefur verið gífurlega vel staðið að skipulagningu mótsins undanfarin ár“ segir Sveinn og bætir við „Við hjá Ali erum mjög ánægð með að halda áfram að styðja við bakið á Breiðabliki en Ali einblínir á að styðja við íþróttastarf barna- og unglinga og Alimótið er stór liður í því“.
Ísleifur Gissurarson sem starfar sem deildarstjóri barna-og unglingaráðs knattspyrnudeildar Breiðabliks tók í sama streng „Til þess að halda svona glæsilegt mót eins og Alimótið er þá þarf að vera sterkur styrktaraðili á bakvið það og samstarfið við Ali hefur reynst okkur mjög vel hingað til en mótið er einmitt ein mikilvægasta fjáröflun 5. flokksins í Breiðabliki fyrir N1 mótið sem er haldið á hverju sumri“