Nú styttist í að keppnistímabílið byrji hjá hjólreiðadeild Breiðabliks. Reyndar eru sumir félagar farnir að taka þátt í vorkeppnum erlendis og Ingvar Ómarsson tók þátt í einni slíkri á Kanarí í mars meðan að hann var þar í æfingaferð. Fyrir áhugasama var æfingaferðin tveggja vikna löng og Ingvar hjólaði samtals 1900km á þessum tveimur vikum og náði 38000hæðarmetrum samtals á þessum dögum. Keppnin sjálf (Desafío la Titánica) var 143 km en samanstóð af 4 brekkuleggjum þar sem tími var tekinn (þess á milli var hjólað án tímatöku yfir í næstu brekku). Keppnin endaði í Táradalnum sem er mjög þekkt klifur hjá hjólreiðafólki og er 21km langt og mjög bratt (heildarhækkun í keppninni var samtals 3600 hæðarmetrar). Um 150 keppendur voru mættir til leiks í þessa vorkepnni víðsvegar úr heiminum ásamt nokkrum heimamönnum. Ingvar vann fyrsta legginn og nái svo að bæta aðeins við forskotið í öðrum legg. Þriðji leggur var svo hjólaður taktískt til að passa að enginn væri að vinna of mikið til baka af þessu forskoti og til spara aðeins orku fyrir erfðasta legginn sem Ingvar vann síðan nokkuð örugglega og heildarkeppnina með um mínútu forskoti. Í heildina mjög vel heppnuð æfingaferð og keppni hjá Ingvari sem lítur mjög vel út fyrir komandi keppnistímabil.