Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar festi fyrir nokkru kaup á upptökuvélinni VEO Live sem sýnir leiki í beinni útsendingu gegnum þar til gert app VEO Live.

Nú þegar eru til upptökuvélar frá VEO sem Breiðablik hefur lengi notað en þær hafa ekki þann möguleika að sýna leikina beint.

Mikil ánægja er með útkomuna og hefur vélin þegar verið mikið notuð í leikjum yngri flokka.

„Þetta er að koma vel út, vélin er einföld í notkun og notendaviðmótið fljótlegt. Þetta er fyrst og fremst hugsað fyrir foreldra sem vilja fylgjast með leikjum barna sinna. Svo nýtist þetta líka þjálfurum sem fylgjast með leikmönnum úr öðrum flokkum og ná þannig að vinna betur saman.“ segir Hákon Sverrisson, yfirþjálfari knattspyrnudeildar.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar langar til að stækka enn frekar við þetta verkefni og festa kaup á fleiri vélum sem geta nýst félaginu m.a. á heimavöllum Breiðabliks í Fagralundi, Fífunni og á Kópavogsvelli.
Hver vél kostar um 90.000 krónur (650 evrur) með nauðsynlegum samningum og búnaði og lýsum við nú eftir aðilum sem væru til í að styrkja slíkt verkefni með kaupum á einni eða fleiri vélum. Slíkum bakhjörlum BUR yrði sérstaklega þakkað með viðeigandi hætti.

Áhugasamir stuðningsaðilar eru beðnir um að hafa samband við Ísleif Gissurarson, deildarstjóra BUR á isleifur@breidablik.is

 

Áfram Breiðablik!