Hjólreiðakona ársins: Björg Hákonardóttir, fædd 1987.
Björg varð bæði Íslandsmeistari og bikarmeistari í cyclocross árið 2023. Einnig varð hún bikarmeistari í ólympískum fjallahjólreiðum þrátt fyrir að hafa verið úr leik í nokkrar vikur vegna handarbrots. Björg varð í þriðja sæti á Íslandsmótinu í fjallahjólamaraþoni. Þá varð Björg í 1. sæti bæði í 200 km Greflinum og 100 km í The Rift. Björg keppti einnig erlendis með góðum árangri. Hún sigraði 75km fjallahjólamaraþon í Silkeborg og í lok keppnistímabils keppti Björg á heimsmeistaramótinu í malarhjólreiðum sem hún kláraði vel við erfiðar aðstæður.
Björg átti mjög gott ár í keppnishjólreiðum þrátt fyrir óhöpp en gefst aldrei upp og tekur sífelldum framförum. Hún er góður félagi og er hvatning fyrir annað hjólreiðafólk.
Hjólreiðamaður ársins: Ingvar Ómarsson, fæddur 1989.
Ingvar gerði sem fyrr víðreist bæði innan lands og utan. Hér heima fyrir varð hann bæði Íslandsmeistari og bikarmeistari í götuhjólreiðum og cyclocross og varð í 2. sæti á Íslandsmótunum í tímatöku, fjallahjólreiðum og maraþonfjallahjólreiðum. Líkt og undanfarin ár varð Ingvar í 1. sæti í Bláalónsþrautinni og var fyrstur Íslendinga í The Rift þar sem hann varð í 8. sæti. Einnig sigraði hann Westfjords Way Midnight Special.
Á erlendri grundu tók Ingvar þátt í 10 keppnum, þar af fjórum stórmótum. Má þar helst nefna Dirty Reiver sem Ingvar vann og var það áttundi sigur hans erlendis á ferlinum. Hann varð 15. í The Traka 200 km. Ingvar náði 17. sæti í Swiss Epic (UCI S1 keppni) og 37. sæti í BeMC (UCI S1 keppni). Ingvar tók þátt í tímatöku bæði á HM (52. sæti) og EM (28. sæti).
Þá má geta þess að Ingvar hefur nú verið einn fremsti hjólreiðamaður landsins í tíu ár og keppt í næstum öllum hjólreiðagreinum sem í boði eru á landinu. Hann á jafnframt lengsta feril Íslendinga í landsliðinu og leggur sig fram um að vera til fyrirmyndar og miðla af reynslu sinni og þekkingu á hjólreiðum.