Nú í byrjun októbermánaðar lauk formlega fótboltasumrinu 2023 í yngri flokkum Breiðabliks þegar 2. flokkur karla og kvenna spiluðu sína seinustu leiki í Íslandsmótinu.

Alls léku lið Breiðabliks 872 leiki í Íslandsmótum og bikarkeppnum frá meistaraflokkum niður í 5. flokk karla og kvenna. Er það aukning um rúmlega 200 leiki frá árinu 2022 og stafar hún af ýmsum ástæðum eins og fjölgun liða í flokkunum, lenging Íslandsmóts í 2. og 3. flokki og tilkomu liðs Smára í 2. deild kvenna.

Fyrir utan þessa leiki hér að ofan bætast svo við leikir meistaraflokks karla í Evrópukeppnum og önnur mót eins og N1 mót drengja, TM-mót stúlkna, ReyCup, Gothia Cup og ekki síst Símamót Breiðabliks.

Alls voru skráð 60 lið á vegum Breiðabliks í Íslands- og bikarmótum sumarsins. Er það mesti fjöldinn frá einu liði og var næsta lið á eftir með 38 lið skráð. Sé horft til liðafjölda er Breiðablik því 57% stærra en næsta lið á eftir.

Mörg lið Breiðabliks náðu frábærum árangri í sumar.

Gaman er að segja frá því að A-lið 5. flokks kvenna vann öll mót sem liðið var skráð í á þessu ári þegar þær urðu Faxaflóameistarar, Íslandsmeistarar, Símamótsmeistarar og TM-móts meistarar.
3. flokkur kvenna sigraði ReyCup eftir úrslitaleik gegn Bayern Munchen sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni.

B-lið 4. flokks hlaut silfur í Íslandsmóti eftir úrslitaleik gegn FH.

Í drengjaflokkum náðist einnig góður árangur. 4. Flokkur hreppti bikarmeistaratitilinn og einnig urðu A og B lið 4. flokks Íslandsmeistarar. 3. flokkur karla hreppti silfur í bikarúrslitum og Íslandsmóti A liða eftir úrslitaleiki við KA í báðum tilfellum.
B-lið 3. flokks hlaut einnig silfur í Íslandsmóti eftir úrslitaleik gegn KA líkt og A-liðið.

Í 5. Flokki drengja urðu Breiðablik Íslandsmeistarar í B- liðum og D-liðum og F-lið hlaut silfur eftir úrslitaleik gegn Þrótti R. A- lið 5. Flokks fór í úrslitaleik á N1-mótinu þar sem það laut í lægra haldi fyrir Stjörnunni. B-lið 2. flokks hlaut einnig silfur í sínu Íslandsmóti.

Til viðbótar við þennan flotta árangur sem greint er frá hér að framan er vert að vekja athygli á því starfi sem unnið er almennt í flokkum félagsins.
B-hópur 2. flokks drengja hefur stækkað jafnt og þétt undanfarið og telur nú 50 stráka sem hófu allir tímabilið haustið 2022 og luku því jafn margir ári síðar.

Yngstu iðkendum félagsins fjölgar ört og hefur 8. flokkur drengja aldrei verið jafn fjölmennur og nú á haustmánuðum 2023, en um 160 strákar hafa mætt þar undanfarið. 8. flokkur kvenna er einnig fjölmennur og telur um 90 stelpur.

Sett var á fót kvennalið Smára í meistaraflokki sem lék í 2. Deild í sumar, en þar gafst vettvangur fyrir stúlkur sem gengnar eru upp úr 2. flokki til að leika knattspyrnu áfram til gamans.

Símamót Breiðabliks fór fram í 39. skiptið í júlí. Þar voru alls um 2.900 keppendur skráðir til leiks í 8. – 5. flokki kvenna og er um að ræða fjölmennasta knattspyrnumót landsins. Þetta árið var „Bleika spjaldið“ kynnt til leiks en því er ætlað að minna foreldra, þjálfara og aðra áhorfendur á að hvetja börnin áfram með jákvæðum hætti og sýna dómurum virðingu. Þetta átak skilaði tilætluðum árangri og var framkoma mótsgesta almennt til fyrirmyndar.

 

Dómgæsla í yngri flokkum stærsta áskorunin

 

Að lokum ber að taka fram að Breiðablik þakkar þeim iðkendum, foreldrum og aðstandendum félagsins sem hafa lagt til aðstoð við dómgæslu í heimaleikjum yngri flokkanna í sumar. Um er að ræða ríflega 550 heimaleiki og á að giska u.þ.b. 1.200 dómarastörf.

Mönnun dómgæslu er stærsta áskorun félagsins á hverju sumri og óskar félagið þess að fleiri foreldrar bjóði sig fram til að aðstoða við að dæma leiki.

Hægt er að hafa samband við Hákon yfirþjálfara (hakon@breidablik.is) eða Ísleif deildarstjóra (isleifur@breidablik.is) ef áhuginn er fyrir hendi.