Íslandsmótið í tímatöku (e. timetrial) fór fram um 24.-25. júní 2017 á Krýsuvíkurmalbiki við mjög góðar aðstæður. Breiðablik átti nokkra keppendur í meistaraflokki sem stóðu sig allir mjög vel. Á Íslandi hefur skapast hefð fyrir því að keppa á sömu brautinni tímatöku og er vegalengdin alltaf 20km. Í meistaraflokki kvenna var hörð barátta milli Rannveigar (Breiðablik) og Ágústu Eddu (Tindur). Ágústa tók 3 sek á Rannveigu á fyrstu 5km en síðan hélst það bil næstu 15km. Ágústa varð því Íslandsmeistari á tímanum 30:11 (39,8km/klst meðalhraði) og var þremur sekúndum á undan Rannveigu. Margrét Pálsdóttir (Breiðablik) varð í 3. sæti rúmum 30 sek á eftir Ágústu.
Í meistaraflokki karla var einnig hörð barátta um sigurinn. Hákon Hrafn (Breiðablik) var með besta tímann eftir 5km og Hafsteinn Ægir (HFR) og Rúnar Örn (Breiðablik) voru einungis þremur og 8 sek. þar á eftir. Hákon bæti síðan við forskotið á næstu 15km og Rúnar náði einnig að halda góðum hraða. Hákon vann á tímanum 26:13 sem er nýtt brautarmet með meðalhraða 45,9 km/klst) sem er mesti hraði sem náðst hefur í tímatöku í þessari vegalengd á Íslandi. Rúnar Örn varð 2. á tímanum 26:28 og Hafsteinn 3. á tímanum 26:55. Bjarni Garðar varð í 4. sæti en hann var Íslandsmeistari 2016 en kom í þessa keppni beint úr WOW-cyclothon þar sem hans lið sigraði keppni blandaðra liða.
Þetta var jafnframt fyrsti Íslandsmeistaratitill sem einstaklingur sem keppir fyrir Breiðablik í hjólreiðum nær en deildin var stofnuð 2016.
Til hamingju Blikar.