Breiðablik varð Íslandsmeistari í 8. flokki drengja helgina 28-29. apríl þegar úrslitamót A-riðils fór fram í Ásgarði. Á mótinu léku Blikar gegn Haukum, Njarðvík, Fjölni og Stjörnunni og sigruðu alla sína leiki nokkuð örugglega og voru að lokum krýndir Íslandsmeistarar árið 2018.

Strákarnir eru vel að þessu komnir en það má til gamans geta að þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Breiðabliks í yngri flokkum síðan 2008.

Þessi hópur, skipaður drengjum fæddum 2004, er búinn að eiga mjög flott ár heilt yfir og var honum til að mynda boðið að taka þátt á Scania Cup ásamt því að hafa náð í góð úrslit á fjölliðamótum í vetur. Hér er á ferðinni bráðefnilegt lið og framtíðin því björt í Kópavogi.

Við erum afar stolt að eiga eins frambærilega körfuboltamenn innan okkar raða og óskum strákunum og þjálfurum innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.