Bjarni Geir Gunnarsson hefur samið við Breiðablik um að spila með liðinu í Dominosdeildinni á komandi keppnistímabili.  Bjarni er uppalinn Bliki sem hefur verið á vergangi undanfarin ár en hefur nú séð ljósið og snúið aftur heim.

Bjarni var síðast í herbúðum Stjörnunnar en gat lítið beitt sér fyrir Garðabæjarliðið þar sem hann var að glíma við erfið meiðsli. Nú hefur Bjarni náð sér af meiðslum sínum og er farinn æfa með Blikum af fullum krafti.

Bjarni sem er fæddur árið 1995 er frábær varnarmaður og góð þriggja stiga skytta með mjúka stroku. Hér er á ferðinni fjölhæfur leikmaður sem getur leyst nokkrar stöður á vellinum.

Pétur þjálfari Breiðbliks hafi þetta að segja um komu Bjarna:

„Bjarni er leikmaður sem getur brugðið sér í mörg hlutverk og er með reynslu af úrvalsdeild svo hann veit hvað þetta snýst um. Hann er alltaf í fanta formi og æfir eins og atvinnumaður sem setur gott formdæmi fyrir restina af hópnum“

Bjarni sló á létta strengi þegar við náðum tali af honum og spurðum hann út í félagaskiptin:

„Blikarnir eru búnir að vera duglegir að landa meðal þorskum það sem af er sumri en núna fengu þeir hákarl í netið. En að öllu gamni sleppt þá er mjög gott að vera kominn heim í uppeldisfélagið og fá tækifæri að vera hluti af úrvalsdeildarliði Blika, ég er mjög spenntur fyrir þessu tímabili og það er útlit fyrir skemmtilegan vetur!“

Við fögnum komu Bjarna í Breiðablik og bjóðum hann hjartanlega velkominn heim.