Skáhátíð MótX 2019 stendur nú sem hæst. Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson er í forystu í A-flokki með fullt hús eftir fjórar umferðir af sjö og sýnir ekki á sér neitt fararsnið af toppnum. Í 2.-5. sæti með þrjá vinninga eru Guðmundur Kjartansson, Halldór Grétar Einarsson, Jón L Árnason og Baldur Kristinsson. Nú fara leikar að harðna og m.a. er Jóhann Hjartarson kominn aftur eftir ofurskákmótið á Gíbraltar sem er fyrsta flokks þjálfunarbúðir undir suðrænum, sjálfbærum pálmatrjám. Titilhafar, sem sátu margir hverjir yfir í 4. umferð, koma líka endurnærðir til baka þannig að búast má við frísklegri og skapandi taflmennsku í 5. umferð þriðjudaginn kemur.

 

Í B-flokknum eru Jón Trausti Harðarson og Páll Andrason efstir með 3,5 vinninga hvor.

 

Í fjórðu umferð áttust við á efstu borðunum í A-flokki:

 

Þröstur Þórhallsson og Hjörvar Steinn Grétarsson.

Huginskapparnir öflugu tókust á í skotgrafahernaði. Hjörvar Steinn stýrði svörtu mönnunum og fékk góðan reit á e4 fyrir hvítreita biskup sinn eftir byrjunina. Á móti fékk Þröstur hreiður fyrir riddara á d4. Tilfærsla Hjörvars á biskupi frá e7 í gegnum d8 til b6 er þekkt leikaðferð í Sikileyjarvörn og oftar en ekki bráðsniðug. Sú varð raunin í þetta sinn og eftir uppskipti á biskupi og riddaranum í d4-vélbyssuhreiðrinu beindist athyglin á ný að biskupsstórveldinu á e4 sem miðaði á g2. Og eftir að Hjörvar hafði hlaðið liði á g-línuna var komið að hnykk sem vann drottningu Þrastar.

  1. – f4! 41.Hxf4 Hxg2+ 42.Hxg2 Hxg2+ 43.Dxg2 Bxg2

Spilið var samt ekki búið og freistaði Þröstur þess að hlaða sér virki með hróki og biskupi á svörtu reitunum. En Hjörvar braust í gegnum tálma þá og þurfti biskup Þrastar að lokum að falla á sverð sitt vegna frípeðs og þá var stutt í endalokin.

 

Baldur Kristinsson og Guðmundur Kjartansson

Stríðsgæfan hefur verið hinum bráðefnilega Baldri Kristinssyni hliðholl á þessu móti. Gummi skipti upp á biskup fyrir riddara á c3 og vann í framhaldinu veikt c3 peð. En biskupar Baldurs voru langdrægir og með virkri taflmennsku uppskar hann sókn á sjöundu reitaröðinni sem dugði fyllilega til jafnteflis.

 

Jón L Árnason og Jóhann Ingvason

Heimsmeistarinn (ungmenna) fyrrverandi leitaði í smiðju rómantísku meistaranna í byrjanavali sínu og beitti Kóngsbragði. Hann var þekktur fyrir þá byrjun á sínum yngri árum og vitað er af eldri þýskum skákáhugamönnum sem dáðust að þessum unga Íslendingi sem tefldi svona skemmtilega! Þegar Jón L. er í alvöru sóknarham bresta flestar varnir.

19.e6! fxe6 20.Re5+ Kc8 21.Bxa5 bxa5 22.Dxa5 Kb8 23.Hb1 Hd6 24.Rc6+!

og hvítur vann.

 

Halldór Grétar Einarsson og Bárður Örn Birkisson

Halldór Grétar hefur leikið á als oddi á mótinu og fylgdi sigri á Birni Þorfinnssyni í 3. umferð eftir með því að leggja hinn unga og efnilega Bárð Birkisson að velli. Bárður snaraði fram góðum f4 leik og uppskar miðborðspeðið á d4 og reyndar líka sóknarfæri á kóngsvæng í bónus. En 20. – Rc5 hjá svörtum í stað 20. – b5! færði hvítum nauðsynlegt mótspil og stjórnun á stöðu sinni. Staða hvíts var samt ennþá viðsjárverð. En fyrst 27. g3 gekk og vann peðið á f4, snerist taflið við þótt skákreiknarnir væru enn hliðhollir stöðu svarts. Hvítur stillti svo mönnum sínum upp til kóngsóknar í tímahraki svarts og sótti einnig lævíslega að drottningu hans og þegar sú mæta valkyrja lokaðist inni var stutt í endalokin.

35.Hg4! Hcd8 36.Rg1 Rg3+ 37.Hxg3

og svartur gafst upp.

 

Meðal óvæntra úrslita í A-flokki var sigur Lenku á Karli Þorsteins, en það kom ekki af góðu því að síminn hringdi á „silence“ hjá Kalla með lágu titringshljóði. Og samkvæmt reglum FIDE er það nóg, því miður. Þessar símareglur FIDE eru umdeilanlegar og refsingarnar ekki í samræmi við alvarleikann. Munurinn á símatitringi og t.d. hávaða frá stóli, sem dreginn er eftir gólfi, er enginn með tilliti til truflunar.

 

Kristján Eðvarðs mátti prísa sig sælan að ná jafntefli gegn Herði Aroni sem tefldi mjög vel.

Í B-flokki vann Jón Trausti sigur á Birki Ísak á efsta borði. Jón Trausti og Páll Andrason, sem vann Batel, eru jafnir og efstir þegar mótið er hálfnað. Sverrir Hákonarson vann góðan sigur á Tinnu Kristínu Finnbogadóttur.

 

Sjá önnur úrslit í A og B flokkum í yfirliti hér að neðan.

 

A-flokkur:

Nafn Stig Úrslit Nafn Stig
GM Thorhallsson Throstur 2425 0 – 1 GM Gretarsson Hjorvar Steinn 2560
Kristinsson Baldur 2217 ½ – ½ IM Kjartansson Gudmundur 2424
GM Arnason Jon L 2432 1 – 0 Ingvason Johann 2175
FM Einarsson Halldor Gretar 2272 1 – 0 CM Birkisson Bardur Orn 2233
FM Ragnarsson Dagur 2327 1 – 0 Kristjansson Atli Freyr 2174
WGM Ptacnikova Lenka 2187 1 – 0 IM Thorsteins Karl 2421
FM Sigfusson Sigurdur 2241 ½ – ½ Sigurjonsson Siguringi 2080
Bergsson Stefan 2172 0 – 1 Ornolfsson Magnus P. 2201
Hauksson Hordur Aron 1846 ½ – ½ Edvardsson Kristjan 2190
FM Stefansson Vignir Vatnar 2248 1 bye
GM Hjartarson Johann 2530 ½ Yfirseta
IM Gunnarsson Jon Viktor 2462 ½ Yfirseta
GM Thorfinnsson Bragi 2438 ½ Yfirseta
IM Thorfinnsson Bjorn 2414 ½ Yfirseta
IM Arngrimsson Dagur 2367 ½ Yfirseta
Halldorsson Gudmundur 2174 ½ Yfirseta
Viglundsson Bjorgvin 2092 ½ Yfirseta

 

B-flokkur:

 

Nafn Stig Úrslit Nafn Stig
Hardarson Jon Trausti 2137 1 – 0 Johannsson Birkir Isak 1910
Davidsson Oskar Vikingur 1941 ½ – ½ Bjornsson Eirikur K. 1955
Haile Batel Goitom 1549 0 – 1 Andrason Pall 1833
Johannsdottir Johanna Bjorg 1924 ½ – ½ Jonsson Gauti Pall 2070
Briem Stephan 1987 0 – 1 Baldvinsson Loftur 1925
Maggason Oskar 1805 1 – 0 Briem Benedikt 1868
Davidsson Stefan Orri 1530 0 – 1 Arnarsson Hrannar 2028
Finnbogadottir Tinna Kristin 1889 0 – 1 Hakonarson Sverrir 1521
Gudmundsson Gunnar Erik 1693 1 – 0 Heidarsson Arnar 1740
Sharifa Rayan 1164 0 – 1 Magnusdottir Veronika Steinunn 1740
Sigfusson Ottar Orn Bergmann 1275 0 – 1 Einarsson Oskar Long 1743
Alexandersson Orn 1512 0 – 1 Gunnarsson Baltasar Mani Wedh 1355
Luu Robert 1687 1 bye

 

MótX 65+ meistarinn:

1. sæti: Björgvin Víglundsson 2,5 vinninga

 

MótX 50+ meistarinn:

1.-2. sæti: Halldór Grétar Einarsson og Jón L Árnason 3 vinninga

3.-4. Sæti: Þröstur Þórhallsson og Björgvin Víglundsson 2,5 vinninga

 

Skákmeistari Breiðabliks:

1.sæti: Halldór Grétar Einarsson 3 vinninga

2.sæti: Dagur Arngrímsson 2,5 vinninga

3.-5. sæti: Jóhann Ingvason, Magnús Pálmi Örnólfsson og Lenka Ptachnikova 2 vinninga

 

Unglingameistari Breiðabliks:

1.-2. sæti: Óskar Víkingur Davíðsson og Birkir Ísak Jóhannsson 3 vinninga

3.-6. sæti: Sverrir Hákonarson, Stephan Briem, Benedikt Briem og Gunnar Erik Guðmundsson 2 vinninga.

 

 

Teflt er á þriðjudagskvöldum í Stúkunni við Kópavogsvöll og hefst taflmennska kl. 19:30. Skákstjóri er Vigfús Vigfússon og einnig leysir Kristján Örn Elíasson af í umferðum fjögur og fimm.

 

Heitt er á könnunni og bruðerí af bestu sort og áhugasamir hvattir til að líta inn.