Steini Þorvalds sæmdur gullmerki Breiðabliks

Steini Þorvalds var sæmdur Gullmerki Breiðabliks á heimili sínu á 70 ára afmælisdaginn sinn þann 2. nóvember. Það voru þau Halla Garðarsdóttir, varaformaður aðalstjórnar Breiðabliks og Guðmundur Sigurbergsson, gjaldkeri aðalstjórnar sem veittu honum gullmerkið.

Steini hóf fyrst störf fyrir Breiðablik árið 1992 þegar hann var kosinn í stjórn handknattleiksdeildar Breiðabliks og gegndi hann svo formennsku fyrir deildina árið 1993. Síðar flutti Steini út á land en kom til baka árið 1998 og gekk þá í stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks og sat hann í stjórn í 10 ár, síðustu tvö árin var hann formaður knattspyrnudeildar. Steini var kosinn í aðalstjórn Breiðabliks fyrir 4 árum síðan og situr hann þar enn.

Steini var í stjórn knattspyrnudeildar þegar Breiðablik seldi sinn fyrsta leikmann út í atvinnumennsku en það var hann Marel Baldvinsson þegar hann gekk til liðs við Stabæk í Noregi árið 2000. Þá flugu Steini og Sverrir Davíð Hauksson út til Noregs og gengu frá kaupunum og lögðu þar með forskriftina um kaup og sölu leikmanna hjá félaginu. Steini var farastjóri þegar Breiðablik tók þátt í Evrópukeppni í knattspyrnu í fyrsta skiptið, þá hélt meistaraflokkur kvenna alla leið út til Hvíta-Rússlands og léku gegn FC Bobruichanka.

Steini er ekki aðeins góður félagsmaður heldur hefur hann góðann mann að geyma og er haft sérstakt orð á því hversu gott er til hans að leita. Í gegnum árin hefur hann unnið óeigingjarnt og ómetanlegt starf í þágu félagsins og gerir hann það enn þann dag í dag.