Körfuboltinn er vaxandi íþrótt á Íslandi, bæði hvað varðar vinsældir og fjölda iðkenda. Hingað til hefur körfubolti í Kópavogi eingöngu verið tímabils íþrótt yfir veturinn og þar til ekki alls fyrir löngu var hefðbundið æfingatímabil frá miðjum september fram í lok apríl eða byrjun maí. Fyrir tveimur árum var æfingatímabilið hjá Breiðablik lengt og hefjast nú skipulagðar æfingar alla jafna síðustu vikuna í ágúst og standa fram til loka maí. Þá hefur verið gert hlé fram í miðjan júní þegar sumaræfingar fyrir elstu hópana hafa hafist en þær hafa staðið fram í miðjan ágúst, með 2 vikna hléi í júlí, og verið fjórum sinnum í viku.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Breiðabliks hefur nú ákveðið að blása til sóknar í körfuboltastarfi í Kópavogi. Hefur sú grundvallarákvörðun verið tekin að gera körfubolta að heilsársíþrótt hjá 10 ára og eldri. Skipulagðar æfingar samkvæmt töflu verða eins og áður, frá lok ágúst og fram í maí. Eftir það verða æfingar með breyttu sniði yfir sumartímann frá mánudegi til fimmtudags, frí allar helgar og frí í fjórar vikur frá byrjun júlí og framyfir verslunarmannahelgi. Þá halda sumaræfingar áfram með áðurgreindu sniði þar til ný æfingatafla tekur gildi í lok ágúst.

Ívar Ásgrímsson yfirþjálfari körfuknattleiksdeildar félagsins og þjálfari meistaraflokks kvenna mun stýra og hafa umsjón með æfingum yfir sumartíma.
Með þessu telur stjórn körfuknattleiksdeildarinnar að verið sé að auka þjónustu við iðkendur enda sé ákallið til staðar í takt við vinsældir íþróttarinnar hér á landi.

Af þessum sökum hækka æfingagjöld 10 ára og eldri umfram venjubundnar í hækkanir vegna verðlags- og launaþróunar.
Æfingagjöld fyrir tímabilið 2019-2020 verða því sem hér segir:

Krílakarfa – 10 skipta kort kr. 15.000
Minnibolti 6-7 ára kr. 53.900
Minnibolti 8-9 ára kr. 79.800
Minnibolti 10 – 8. flokks kr. 91.100
9. flokkur og eldri kr. 97.000

Rétt er að minna á að frístundastyrkur Kópavogs er nú 50.000 krónur á ári og eiga allir iðkendur rétt á styrk frá og með því ári sem 5 ára aldri er náð, til og með því ári sem 18 ára aldri er náð. Einnig er hægt að nýta frístundastyrk Reykjavíkur.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Breiðabliks vonar að iðkendur sem og aðstandendur taki vel í ofangreindar breytingar og nýti sér til fulls þá möguleika sem þessu fylgja.