Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur ráðið Óskar Hrafn Þorvaldsson sem þjálfara meistaraflokks karla til næstu fjögurra ára.

Óskar þjálfaði yngri flokka KR og Gróttu um árabil og hefur þjálfað meistaraflokk Gróttu með góðum árangri frá 2017. Undir hans stjórn tryggði Grótta sér sæti í efstu deild nú í haust með sigri í Inkasso-deildinni. Óskar lék um langt árabil með meistaraflokki KR í efstu deild. Hann lék 3 A-landsleiki fyrir Íslands hönd auk fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands.

“Ég er þakklátur fyrir að vera treyst til að leiða, jafnöflugt félag og Breiðablik er, næstu árin. Leikmannahópurinn er framúrskarandi, aðstæðurnar fyrsta flokks og ég get ekki beðið eftir að byrja að vinna með öllu því góðu fólki sem kemur að félaginu. Á sama tíma kveð ég Seltjarnarnesið með söknuði, leikmannahóp, stjórn og starfsfólk sem ég hef átt tvö ótrúlega viðburðarrík ár með.” segir Óskar Hrafn Þorvaldsson nýráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu.

Óskar á rætur að rekja í Kópavoginn, nánar tiltekið á Urðarbrautina, en hann er sonarsonur Jóhanns Baldurs heitins, þess kunna heiðursmanns og stór-Blika sem setti mikinn svip á félagið um áratuga skeið.

“Við í Breiðabliki erum mjög ánægð með að hafa samið við Óskar Hrafn um að taka að sér þjálfun karlaliðs félagsins og bjóðum hann innilega velkominn. Við teljum að áherslur Óskars Hrafns og hugmyndir varðandi þálfun samræmist afar vel því sem við viljum að Breiðablik standi fyrir sem uppeldis- og afreksklúbbur í fremstu röð á Íslandi. Óskar Hrafn tekur við góðu búi af forvera sínnum sem skilaði afar góðu starfi. Það er mat okkar að hann sé rétti einstaklingurinn til að leiða og móta faglegt starf okkar áfram í gegnum næstu áfanga” segir Orri Hlöðversson formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Blikar bjóða Óskar Hrafn hjartanlega velkominn til starfa hjá okkar frábæra félagi💚