Nýjar reglur á samkomutakmörkunum tóku gildi í gær. Á meðal breytinga er að íþróttaæfingar verða heimilar og ætlum við því að hefja íþróttaskólann nk. laugardag þann 16. janúar en þó með nokkrum takmörkunum.

Það verður áfram grímuskylda og eingöngu eitt foreldri með hverju barni. Jafnframt biðjum við hina fullorðnu um að halda 2 metrum sín á milli eins og hægt er og takmarka alla snertifleti með því að snerta sem allra minnst inni í salnum. Einnig viljum við biðja alla um að spritta sig bæði fyrir og eftir tímann og vera heima ef þið finnið fyrir einkennum.

Við munum skipta salnum í tvö hólf og verða 20 fullorðnir í hvoru hólfi auk þjálfara. Einnig verðum við með tvo innganga til að koma í veg fyrir skörun hópa, sjá innganga á meðfylgjandi mynd. Jafnframt biðjum við ykkur um að mæta ekki meira en 5 mín fyrir tímann til að lágmarka hópamyndun.

Tímarnir verða 45 mín og biðjum við ykkur um að vera snögg út úr húsinu áður en næsti hópur mætir. Okkur er óheimilt að hafa opna búningsklefa og því biðjum við ykkur að aðstoða börnin með útifötin og geyma upp við veggina í salnum.

Tímarnir verða aldursskiptir og þarf að skrá sig fyrirfram á https://breidablik.felog.is/ og má gera ráð fyrir að færri komast að en vilja. Við viljum biðja ykkur um að sýna þessum takmörkunum skilning en við munum auðvitað endurskoða stöðuna á milli vikna.

Hóparnir verða eftirfarandi á laugardaginn:
2 ára hópur kl. 9:30 – 10:15, Inngangur A (Suðurhólf)
3 ára hópur kl. 9:30 – 10:15, Inngangur B (Norðurhólf)
4 ára hópur kl. 10:30 – 11:15, Inngangur A (Suðurhólf)
5 ára hópur kl. 10:30 – 11:15, Inngangur B (Norðurhólf)