Nú styttist óðum í næsta Símamót en það verður haldið dagana 8.-11. júlí næstkomandi.

 

Í ljósi góðrar reynslu frá því á síðasta ári hefur verið ákveðið að hafa sama fyrirkomulag varðandi Fagralund og mun því 5. flokkur keppa alla sína leiki þar. Úrslitaleikur 5. flokks verður samt spilaður á Kópavogsvelli á sunnudeginum.

 

6. og 7. flokkur spila í Smáranum eins og í fyrra en í ár ætlum við að prófa þá nýjung að bjóða 8. flokks stelpum að spila á “Litla Símamótinu” í Fífunni á laugardeginum.

 

Það stefnir í enn eitt metárið í þátttöku og talsverða fjölgun liða frá í fyrra og reynir mótsstjórn eftir fremsta megni að koma öllum þeim liðum sem staðfest hafa mætingu pláss á mótinu.  Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á mögulegan liðafjölda og grófa riðlaskiptingu.

 

Verið er að manna vaktir sjálfboðaliða en á móti sem þessu þarf að manna um 450 vaktir og treystum við þar á sterkt bakland í sjálfboðaliðum og foreldrum iðkenda Breiðabliks.

 

Skrúðganga og setningarathöfnin verða á sínum stað á fimmtudeginum og fáum við til okkar góða gesti til að keyra mótið í gang með eftirminnilegum hætti.

 

Endanleg dagskrá verður sett inn á þessa síðu og Facebook síðu mótsins þegar nær dregur og hvetjum við alla til að deila og dreifa til að enginn missi af mikilvægum skilaboðum frá mótsstjórn.