Það gleður okkur að segja frá því að við eigum Íslandsmeistara (óopinberlega) í flokki 60+ í knattspyrnu!
Sannir meistarar sem gengu taplausir frá mótinu.
Þeir kepptu við tvö önnur félög, KR og Þrótt. Þeir unnu fyrstu leikina við mótherjana og gerðu jafntefli í þeim síðari.
Maður mótsins kom úr liði Breiðabliks, Konráð Konráðsson markvörður, sem kom sá og sigraði með glæsilegri frammistöðu milli stanganna.
Ekki nóg með það, elsti maður mótsins var sömuleiðis úr liði Blika. Haraldur Erlendsson, fyrrum íþróttakennari og leikmaður meistaraflokks Breiðabliks, sem varð 76 ára á föstudaginn. Haraldur hefur unnið mikil afrek fyrir félagið en hann lék 158 leiki með meistaraflokki Breiðabliks á árunum 1969-1976 og skoraði fyrsta mark Breiðabliks gegn KR í efstu deild þegar Blikar unnu KR 1-0 árið 1971. Hann gerði einnig meistaraflokk kvenna að Íslandsmeisturum.
Glæsilegir fulltrúar Breiðabliks og miklar fyrirmyndir. Menn geta augljóslega haldið frískleika og fjöri langt fram eftir aldri með réttum lífsstíl og jákvæðu hugarfari.