Á aðalfundi knattspyrnudeildar Breiðabliks sem fram fór í gær 9. nóvember voru þrír drengir úr 2012 árgangi félagsins heiðraðir fyrir ómetanlegan stuðning á leikjum meistaraflokka kvenna og karla sumarið 2022.

Þeir Marvin Gylfi Mogensen, Stefán Ragnar Aðalsteinsson og Þór Gerald Róbertsson voru fastir gestir á leikjum Breiðabliks í sumar og mættu iðulega vopnaðir trommum, kjuðum og þöndum raddböndum. Eins og góðum fyrirmyndum sæmir þá fylgdi þeim oftar en ekki stór hópur annarra iðkenda úr félaginu sem saman bjuggu til frábæra stemmningu í stúkunni.

Þau Ásta Eir Árnadóttir og Kristinn Steindórsson, leikmenn Breiðabliks voru viðstödd fundinn í gær til að afhenda þeim félögum viðurkenninguna í eigin persónu. Ásamt því að hljóta sérútbúin viðurkenningaskjöl frá félaginu fá þeir drengir einnig að bjóða vinum sínum í pizzaveislu í Smáranum á næstunni.

Við í Breiðablik erum mjög stolt af þessum ungu og efnilegu stuðningsmönnum félagsins!