Aðalsteinn Jónsson, eða “Alli” eins og hann er oftast kallaður, fagnaði ekki bara einum heldur tveimur stórum áföngum um nýliðna helgi.

Ásamt því að verða 60 ára á sunnudaginn þá voru einnig liðin 30 ár frá því að hann hóf störf sem einn af stjórnendum Íþróttaskóla Breiðabliks.

Á nánast hverjum einasta laugardagsmorgni síðan 1992 hefur Alli boðið yngstu kynslóðina velkomna í Smárann með sinni einstöku nærveru.

Ætla má að nokkur þúsund einstaklingar hafi á einhverjum tímapunkti hlaupið, stokkið, skriðið, klifrað, sparkað, kastað, liðkað sig, sungið og hlegið með Alla okkar síunga.

Í tilefni af þessum tímamótum var kappinn að sjálfsögðu heiðraður með óvæntri athöfn, einmitt í lok íþróttaskólatíma á laugardaginn.

Fjölskylda Alla gekk þá inn í salinn og hóf afmælissöng áður en að Ásgeir formaður Breiðabliks færði honum blóm og litla gjöf fyrir hönd félagsins.

Að því loknu var öllum viðstöddum boðið upp á köku.

Breiðablik óskar Alla innilega til hamingju með áfangana.