Ingvar i Dirty Reiver
Ingvar Ómarsson tók þátt í stórri gravel keppni í Bretlandi um síðustu helgi. Keppnin ber nafnið Dirty Reiver https://dirtyreiver.co.uk og það voru þrjár vegalengdir í boði, sú lengsta var um 200km og Ingvar gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina. Ótrúlegt afrek hjá honum og formið greinilega mjög gott. Ingvar mun svo keppa í Girona á Spáni um næstu helgi í álíka gravel keppni. Hér fyrir neðan er keppnissaga frá Ingvari.
Ég hef verið “gravel curious” í svolítinn tíma. Prófaði fyrstu gravel keppnina mína 2019 í Dirty Kanza og fann þar að þetta væri skemmtilegt form af keppnishjólreiðum en var ekki svo sannfærður að ég breytti um stefnu á ferlinum. Ég er ekki giftur fjallahjólreiðum og hef farið úr ólympískum yfir í maraþon og hef numið staðar þar og í áfangakeppnum, lengri keppnir henta mér betur í dag og þar líður mér best. Á fjallahjólinu keppni ég alltaf á UCI stigi sem er mikilvægt því ég safna stigum þannig og færist upp í heiminum með góðum árangri. En alveg eins og að taka þátt í einni og einni götuhjólakeppni og tímatöku erlendis (HM og EM) þá hefur mér fundist gaman að fikra mig áfram í gravel og sjá hvernig það hentar mér. Góður gravel hjólari, að mínu mati, er einhver sem hefur úthald á við mjög góðan götuhjólara, tæknigetu á við sæmilegann fjallahjólara, og ekki verra að hafa einhverja hugmynd um hvernig má beita taktík og hjóla í hóp. Ég tikka í öll þessi box sem keppnishjólari þannig að afhverju ætti ég ekki að vera góður í þessu?
Í upphafi árs ákvað ég að gefa mér tækifæri til að prófa meira af gravel keppnum og þó keppnisdagatalið sé fljótandi og ekki fest í stein var ég fljótur að negla niður að fyrsti þriðjungur af keppnistímabilinu (Jan-Maí) myndi samanstanda af tveimur fjallahjólakeppnum, Costa Blanca Bike Race og Belgian Mountainbike Challenge, og svo tveimur gravel keppnum, Dirty Reiver og The Traka. Allt stór og vel þekkt mót og full af öflugri samkeppni en ég vildi fá betri tilfinningu fyrir hvernig ég stend mig í þessum keppnum til að taka betri ákvarðanir um hvert ég stefni í framtíðinni.
Dirty Reiver er 200km löng gravel keppni sem fer fram í Kielder skógi á landamærum Englands og Skotlands. Friðað svæði og fullt af gróðri og stígum sem henta einstaklega vel til malarhjólreiða. Mig hefur langað að prófa þessa keppni í nokkur ár þannig að ég var spenntur að ná að henda þessu inn á planið sem hluti af tveggja keppna ferðalagi, með The Traka næstu helgi í Girona. Ég kynnti mér samkeppnina og kom í ljós að hér væru mættir Bretlandsmeistarar í maraþon fjallahjólreiðum og malarhjólreiðum ásamt mönnum úr þekktum breskum gravel og götuhjólaliðum, og þekkt nöfn á borð við Nicolas Roche. Sterkasta mæting í fremsta hóp hingað til skilst mér og ekki verra að vera með svona félagsskap.
Keppnin fór jafn þægilega af stað og flestar gravel keppnir, sem er ennþá svolítið sjokk fyrir mig, verandi vanur að fara beint í þúsund vöttin á fyrstu sekúndum í fjallahjólakeppnum. Það er spennandi og gaman en ég neita því ekki að rólegt start sem rampast upp fljótlega er ekki af verri endanum. Áður en ég vissi af var keppnin komin í fyrstu brekku dagsins og lítill hópur myndaðist strax. Það endist ekki lengi og fljótlega komu fleiri menn inn í hópinn þannig að við vorum einhvers staðar á bilinu 15-20 í smá stund. Það var hjólað þétt næstu kílómetra en í hverri einustu gravel keppni sem ég hef tekið þátt í hefur verið þetta stutta tímabil þar sem allir eru sáttir við hvar þeir eru í keppninni, hópurinn róast og menn byrja að spjalla. Ég átti gott spjall við Ben Thomas sem ég hef keppt við margoft á fjallahjóli og rifjaði upp með Nicolas Roche góðan bíltúr sem ég átti með honum og Ben Healy, nýjustu stjörnu írskra hjólreiða, á EM í fyrra. En þetta stutta tímabil verður oft til þess að sterkari menn hlaða í árásir og stuttu seinna byrjuðu keyrslurnar, en ein af þeim dugði til að skipta hópnum upp og þar endaði ég með fremstu mönnum, 8 manns og allir mjög sprækir. Það var áberandi meiri hraði héðan í frá og stöku sinnum hjólaði einn og einn í burtu frá hópnum til að reyna að þynna hann enn meira, og auðvitað þurfti að elta þannig að menn fóru hratt með orkubirgðirnar í einhvern tíma. Einn missti af okkur í brekku og stuttu eftir það settu Ben, Mikey og Nico öfluga keyrslu í gang sem ég var snöggur að taka þátt í, og það varð til þess að þrír misstu af lestinni, Nico sneri sér að mér og sagði “four of us now, let’s go!”. Allir sáttir við það en þó áttum við enn hálfa keppnina eftir.
Við deildum vinnunni vel á milli okkar en hjóluðum ansi þétt til að tryggja að enginn færi að ná okkur, og auðvitað er það þema í svona úthaldskeppnum að menn taka sjaldan fótinn af inngjöfinni, þetta er jú keppni í að endast lengur en hinir og ef hraðinn er nógu mikill eru menn þreyttari í lokin, hver einasti í hópnum heldur í vonina að hann sé sá sem endist lengst. Mér leið vel mestann tímann en átti mín augnablik eins og þegar erfiðasta brekkan var hjóluð, nógu hratt til að heyra menn bölva upphátt, en þar fékk ég vondan hlaupasting og átti erfitt með að anda djúpt. Samhliða þessu var greinilega ekki nóg að byrja daginn með 12 gel eða uþb 480 grömm af kolvetnum, því ég var með tóma vasa þegar 150km af 200 voru búnir. En aldrei sprakk dekk og aldrei flaug ég á hausinn og maður má alveg telja það upp líka.
Í gegn um daginn var áberandi mikill munur á þeim sem höfðu fjallahjólabakgrunn, mér og Ben, og þeim sem höfðu hann ekki. Við vorum alltaf miklu sneggri niður brekkur og gátum á köflum sett hina tvo í svo mikil vandræði að þeir þurftu að taka vel á því til að ná okkur aftur eftir að brekkunni lauk. Þetta var góð tilfinning, en ég hef haft mínar efasemdir um hversu góður ég sé tæknilega, hér greinilega dugir það sem ég kann. Þegar það voru sirka 50km í mark sprakk hjá Mikey og hann þurfti að stoppa, þannig að við vorum þrír eftir. Ég stoppaði á síðustu drykkjarstöð í smá stressi og fékk að fylla vasana af orkugelum en gleymdi að fylla á brúsana. 6 og hálfs tíma keppni var hjóluð á tveimur brúsum sem telst ekki skynsamlegt! Ég tók ansi vel á því næstu 5 mínuturnar til að ná strákunum aftur og var feginn því maður veit aldrei hvað hinir eru að gera á meðan maður eltir. Ég er sannfærður um að þeir hafi ekki gert neinar tilraunir til að hækka hraðann á meðan ég var að ná þeim.
Og svo kom að því að Nico sprengdi líka. Hann stoppaði út í kannti í miðri brekku á leiðinni niður og við Ben flugum niður restina, horfðum á hvorn annan og vissum að nú værum við bara tveir að endamarkinu. Við reyndum að vinna saman næstu kílómetrana en ég fann að ég var að verða bensínlaus þrátt fyrir að vera stanslaust að troða í mig orkugelum, þannig að ég var á tímabili fastur milli þess að geta ekki haldið sömu keyrslu og Ben þegar kom að mér að hjóla fyrir framan hann, og að ætla ekki að láta skilja mig eftir. Ég þurfti að hugsa restina af keppninni með smá taktík í huga og vissi að síðustu kílómetrarnir væru á þröngum stíg sem er mjög sléttur og góður, og með nokkrum góðum beygjum en líka stuttum brekkum. Ben áttaði sig á stöðunni og þegar það voru um 15km eftir byrjaði hann að reyna að hrista mig af sér með stuttum árásum upp brekkur. Ég gat ekki annað en svarað þessum árásum og sem betur fer átti ég alltaf nóg inni fyrir 10-20 sek sprett, en það var ekki mikið meira sem ég gat gert. Stígurinn gerði honum erfitt fyrir því aldrei voru brekkurnar nógu langar og brautin var að klárast, stutt í endamarkið. Endakaflinn er mjög stuttt 100 metra löng brekka og um leið og hún endar er tekin hægri beygja þar sem endamarkið tekur strax á móti manni. Ég átti ekkert inni fyrir öðru en að bíða eftir sprettinum og vona að ég næði að hanga í Ben þangað til. Það tókst, og við komum saman að brekkunni þar sem hann byrjaði sprettinn og ég svaraði henni um leið. Hálfa leið upp brekkuna vorum við hlið við hlið og ég náði á síðustu stundu að bregða mér fram fyrir hann, tók hægri beygjuna á undan honum og skaust í mark til að sigra þessa keppni.
Það er gaman að sigra hjólakeppni en að gera það í útlöndum er einstakt. Ein vika á Spáni er næst á dagskrá til að njóta og gera klárt fyrir næsta verkefni, The Traka!