Árið 1950 stofnuðu 70 einstaklingar Íþróttafélagið Breiðablik í Kópavogi.  48 af stofnendum voru börn á aldrinum 12-17 ára og meðal þeirra var faðir Sólborgar, Baldur Sigurgeirsson, þá 14 ára og bróðir hans Gunnlaugur Sigurgeirsson þá 12 ára. Af ákveðnum ástæðum dagaði stofnbók félagsins uppi í fórum Baldurs sem varðveitti hana eftir að hafa fundið hana í dánarbúi Gulla bróður síns sem hafði að sögn Baldurs á einhverjum tímapunkti verið ritari félagsins.

Fyrir rúmlega þrettán árum síðan fékk Sólborg að líta bókina góðu augum og var þá markmið hennar að afhenda félaginu bókina á 60 ára afmæli Breiðabliks. Baldur hafði þá komið henni fyrir á „góðum“ stað og erfitt að fá upplýsingar um hvar hún var niðurkomin þar sem hann var farinn að glíma við veikindi. Baldur lést í febrúar 2022 og konan hans núna í janúar 2023. Þegar hafist var handa að fara yfir dánarbú þeirra var markmið Sólborgar alltaf að finna þessa bók svo hægt væri að koma henni til skila.

Margir dagar liðu án þess að bókin fannst og þegar þau voru í frágangi á síðasta degi þann 2. apríl s.l. fannst bókin fyrir algjöra tilviljun undir skúffu sem ekki vildi lokast og þurfti því að taka hana alveg út… og þar lág hún. Þess má geta að nafn félagsins var ákveðið þennan sama dag fyrir 73 árum á félagsfundi… tilviljun? Sólborg setti sig strax í samband við formann félagsins, Ásgeir Baldurs, í því skyni að skila bókinni.

Baldur faðir Sólborgar var frumbyggi í Kópavogi og Kópavogsbúi alla tíð og var mjög stoltur af því að hafa verið með í stofnun félagsins. Það var henni því sannur heiður að fá boð frá Ásgeiri um að afhenda Breiðablik bókina á aðalfundi félagsins 10. maí síðast liðinn, ásamt skopmynd sem faðir hennar og félagi hans höfðu teiknað og sýnir Breiðablik í stórtapi við Klaufabárða. Þessum ungu drengjum höfðu sennilega ekki órað fyrir því að Breiðablik yrði svona stórt félag eins og raun ber vitni, en í dag telur félagið 13 deildir og um 3300 iðkendur.

Stofnbók Breiðabliks