Blikinn Birna Kristín Kristjánsdóttir er þessa dagana að keppa fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum á Möltu en frjálsíþróttakeppnin hófst 30. maí og hafa íslensku keppendurnir staðið sig gríðarlega vel.

Birna Kristín, sem er ein fremsta og efnilegasta frjálsíþróttakona landsins, hefur átt góða daga þarna úti og keppti í langstökki á fyrsta degi frjálsíþróttakeppninnar, þar sem hún vann til bronsverðlauna með stökki upp á 5,95m (+0,7). Þetta voru fyrstu verðlaun Birnu á Smáþjóðaleikum í einstaklingsgrein en fyrir á hún silfurverðlaun í 4x100m boðhlaupi frá leikunum í Svartfjallalandi 2019. Í gær keppti okkar kona í 100m grindahlaupi þar sem hún hljóp gríðarlega vel og kom fjórða í mark á tímanum 14,33s (+0,2) sem er bæting á hennar besta árangri um hálfa sekúndu.

Við óskum Birnu Kristínu innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og hlökkum til að fylgjast áfram með henni í sumar.

Nánari umfjöllun um árangur íslenska hópsins á leikunum má sjá á silfrid.is