Það er býsna skemmtilegt fyrir okkur Blika að nú í október byrjun sé heilmikið eftir af fótboltasumrinu!
Karlaliðið spilar sinn fyrsta heimaleik í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar núna á fimmtudaginn, á Laugardagsvellinum. Ég held að okkur hætti til að gleyma því stundum hvílíkt afrek það er hjá félaginu að standa í þeim sporum. Slíkur árangur næst ekki á einum degi, heldur með þrotlausu starfi og æfingum allan ársins hring.

 

Þetta fótboltasumarið hefur gengið á ýmsu hjá Breiðabliki. Evrópukeppnin og álag vegna hennar hefur klárlega tekið toll af okkar strákum og árangurinn í deildinni ekki alveg eins og vonast var til. Við erum þó búin að tryggja okkur Evrópusæti á næsta ári sjötta árið í röð og í 10 skiptið á síðustu 14 árum.

 

Árangur kvennaliðsins hefur einnig verið undir væntingum, sárt tap í bikarúrslitum situr ennþá í okkur en liðið er á siglingu og í baráttu um að tryggja sér Evrópusæti. Gripið var til sársaukafullra aðgerða síðsumars og í framhaldinu þurfum við að skoða mjög margt í okkar starfi og fyrirkomulagi kvennamegin á næstu vikum og tryggja að við mætum enn öflugri til leiks næsta sumar.

 

En sumarið er ekki bara meistaraflokksleikir, yngri flokkarnir hafa í sumar spilað 872 KSÍ leiki sem er eiginlega tala sem ekki er hægt að ná utan um. Bak við það eru óteljandi æfingar og frábært starf okkar þjálfara auk sjálfboðaliða í hundraðatali. Þetta skiptir máli, að vera vettvangur fyrir alla sem vilja iðka knattspyrnu en um leið að gefa afreksfólki möguleika á að þroska hæfileika sína og getu og ná eins langt og hægt er.

 

Á fimmtudaginn spila strákarnir við Zorya Luhansk, á föstudaginn spila stelpurnar við Val hálfgerðan úrslitaleik um Evrópusæti og á sunnudaginn spila strákarnir við Stjörnuna um þriðja sætið í deildinni.

 

Þetta er það sem er framundan á fótboltasumrinu okkar og leikmennirnir eiga það skilið að við mætum sem flest á alla þessa leiki. Við stuðningsfólk Breiðabliks njótum þess að okkur er boðið upp á eiginlega endalaust fótboltasumar. Njótum þess saman og hvetjum okkar lið.

 

Áfram Breiðablik

 

Flosi Eiríksson