Í haust var kallað eftir þarfagreiningu Breiðabliks vegna starfshóps Kópavogsbæjar sem vinna mun tillögur að heildarsýn fyrir Kópavogsdal.
Kópavogsdalur er eitt mikilvægasta útivistar- og íþróttasvæði bæjarins. Breiðablik er miðjan í þessu svæði. Það veitir þjónustu og menningu sem eru ómetanleg lífsgæði fyrir félagsmenn og bæjarbúa. Breiðablik vill áfram vera miðjan í dalnum og telur að rödd þess skipti miklu máli fyrir heildarsýn dalsins.
Breiðablik þarf svigrúm til vaxtar enda fyrirséð veruleg fólksfjölgun á svæði Breiðabliks með tilliti til uppbyggingu nýrra íbúða. Fleiri iðkendur kalla einfaldlega á stærra og endurskoðað athafnasvæði ásamt endurskoðun á öryggi samgangna. Árið 2021 var þörf Breiðabliks fyrir aukið íþróttasvæði staðfest í Aðalskipulagi Kópavogs þar sem segir að félagið fái svæðið sem er suðvestan megin í Kópavogsdal sem og svæðið norðaustan við Tennishöllina til uppbyggingar til að mæta vaxandi þörf félagsins fyrir aðstöðu. Félagið telur það nauðsynlegt og tímabært að hefja vinnu við skipulagningu og uppbyggingu svæðisins.
Öllu þessu og fleiru til var komið á framfæri við starfshópinn eins og sjá má í samantektinni sem fylgir.
Vill aðalstjórn Breiðabliks koma þessu jafnframt á framfæri við alla sína félagsmenn og bæjarbúa svo þeir geti kynnt sér framtíðarsýn Breiðabliks fyrir svæðið.
Í framhaldinu mun Aðalstjórn Breiðabliks boða til opins félagsfundar þar sem framtíðarsýn félagsins í Kópsvogsdalnum verður kynnt og verður sá fundur auglýstur fljótlega!
Þarfagreining Breiðabliks – https://bit.ly/3S05T01
Aðalstjórn Breiðabliks