Bæjarráð Kópavogs samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 26.4 að ráðast í umfangsmikla endurnýjun á tveimur knattspyrnuvöllum sem Breiðablik hefur á sínu starfssvæði. Í sumar verður ráðist í endurnýjun á Fagralundarvellinum og lögð hitalögn í völlinn, nýtt gervigras og ný lýsing.  Í haust hefjast síðan framkvæmdir við Kópavogsvöll. Undirlag og lagnir verða endurnýjaðar, völlurinn lagður gervigrasi og hann útbúinn flóðljósum.  Völlurinn mun standast kröfur alþjóðlegra knattspyrnuleikja. Loks verður aðstaða fyrir kastgreinar frjálsra íþrótta gerð vestan vallarins á svæði sem nefnt er Skotmóar. Markmiðið er að ljúka framkvæmdum við Fagralund haustið 2018 og við Kópavogsvöll vorið 2019, jafnvel fyrr.

Að loknum framkvæmdum mun Breiðablik hafa til afnota þrjá gervigras knattspyrnuvelli fyrir vetrariðkun knattspyrnudeildar í stað eins vallar eins og staðan er núna. Í því felst veruleg bót á núverandi aðstöðu. Þá mun aðstaða fyrir frjálsar íþróttir einnig batna verulega.

Eins og kunnugt er lögðum við Blikar upp með þá leið að bíða með Fagralund og leggja gervigras vestan Fífu þess í stað. Það hefði tryggt félaginu tvo velli til iðkunar knattspyrnu yfir veturinn. Skemmst er frá því að segja að Kópavogsbær, sem er eigandi mannvirkjanna, féllst ekki á tillögu félagsins og taldi aðra forgangsröðun brýnni. Vegna þess hversu núverandi völlur í Fagralundi er í slæmu ástandi og vegna ástands lagna á Kópavogsvelli þá yrði að ráðast í endurbætur þeirra mannvirkja strax. Út frá þeim rökum verður til ofangreind tillaga bæjarins um Fagralund og Kópavogsvöll. Í ljósi þessara breyttu forsendna þá er Breiðablik sátt við forgangsröðunina og styður tillögur bæjarins.

Næstu skref eru að ganga frá ýmsum undirþáttum þessara stóru verkefna eins og t.d. rekstrarsamningi um ný mannvirki og stúku aðalvallar, aðgengi fyrir iðkendur á milli Fífu og Kópavogsvallar og aðstöðumál fyrir þjálfara Breiðabliks og iðkendur í Fagralundi.

F.h. aðalstjórnar Breiðabliks

Sveinn Gíslason
Formaður