Breiðablik tilkynnir með mikilli ánægju að Þorsteinn Halldórsson hefur skrifað undir nýjan samning og mun halda áfram þjálfun kvennaliðs félagsins í knattspyrnu næstu þrjú árin.
Þorsteinn tók við Breiðabliki haustið 2014 og er nú að stýra liðinu fimmta sumarið í röð. Á þessum árum hefur árangurinn verið magnaður, en Breiðablik hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla undir stjórn Steina. Þá hefur liðið tvisvar komist áfram í 32ja liða úrslit Meistaradeildarinnar og er nú í tækifæri að komast enn lengra.
Þá má geta þess að í 89 deildarleikjum á Íslandsmótinu undir stjórn Steina hefur Breiðablik unnið 70 leiki og aðeins tapað sjö. Liðið hefur aldrei hafnað neðar en í öðru sæti í deildinni síðan hann tók við.
Breiðablik er hæstánægt að hafa náð samkomulagi við Steina um að halda áfram þjálfun kvennaliðsins. Árangurinn talar sínu máli og hans hugsjón að treysta á unga leikmenn smellpassar við það sem Breiðablik vill standa fyrir. Það hefur ekki síður vakið athygli landsliðsþjálfara, þar sem ungum leikmönnum Breiðabliks sem hafa fengið tækifæri með landsliðum Íslands hefur fjölgað mikið eftir að Steini tók við.