Það er nóg að gera hjá frjálsíþróttablikum á öllum aldri þessa dagana.
Það var vaskur hópur keppenda sem mætti til leiks á Egilsstöðum síðustu helgi til að taka þátt í Meistaramóti Íslands 11-14 ára.
Það er ekki ofsögum sagt að hópurinn hafi staðið sig frábærlega og eftir standa fjölmargar bætingar, met og góðar minningar.
Feiknasterkur hópur 12 ára pilta gerðu sér lítið fyrir og urðu Íslandsmeistarar í sínum aldursflokki en Breiðablik endaði í 6. sæti í heildastigakeppni mótsins.
12 ára piltar urður einnig Íslandsmeistarar innanhúss í vetur og því ljóst að framtíðin er björt.
Mikið var um bætingar, alls 38, og verður það að teljast gott hjá 10 manna hópi.
Krakkarnir sóttu einnig alls 11 verðlaun á mótinu, 4 gull, 5 silfur og 2 brons.
Má þar einna helst nefna að Patrekur Ómar Haraldsson setti mótsmet í 600 metra hlaupi 12 ára pilta þegar hann hljóp á 1:45,16.
Yfirþjálfari hópsins, Albert Borges Moreno, segist stoltur af sínu fólki enda hafi hver og einn keppandi staðið sig ákaflega vel.
Þá vill hann einnig koma á framfæri þökkum til allra þeirra foreldra sem aðstoðuðu á mótinu.