Rafíþróttadeild Breiðabliks samdi um helgina við reynslumikla leikmenn í tölvuleiknum Counter Strike : Global Offensive (CS:GO) um að spila í efstu deild á komandi tímabili undir merkjum félagins.

Um tímamót er að ræða í annars stuttri sögu rafíþróttadeildarinnar en leikmennirnir koma til með að skipa fyrsta meistaraflokkslið Breiðabliks í rafíþróttum.

Sýnt verður frá öllum leikjum deildarinnar, sem ber heitið Ljósleiðaradeildin, á Stöð 2 E-sport í vetur.

 

Eins og fyrr segir er rafíþróttadeild Breiðabliks ung að árum en þessa dagana stendur yfir lokaundirbúningur á öðrum vetri deildarinnar og því komin smá reynsla á allt starfið.

Þess ber að geta að í sumar mættu rúmlega 500 börn á sumarnámskeið rafíþróttadeildarinnar og Arena.

Allt starf deildarinnar fer einmitt fram í frábæru samstarfi við Arena sem útvegar bestu rafíþróttaaðstöðu á landinu ásamt þjálfurum úr efstu hillu.

 

Við getum ekki beðið eftir að sjá meistaraflokkana og yngri flokkana okkar í rafíþróttum á fleygiferð í allan vetur!

 

-Á myndinni má sjá Davíð Jóhannsson, formann rafíþróttadeildar Breiðabliks, og Magnús Árna Magnússon, fyrirliða Breiðabliks í CS:GO, handsala samninginn. Aðrir á myndinni eru stjórnarmeðlimir deildarinnar og leikmenn liðsins.