Aðalfundur Breiðabliks var haldinn í liðinni viku, miðvikudaginn 10.maí, og eins og í fyrra þá var hann vel sóttur. 

 

Guðmundur Sigurbergsson var kjörinn fundarstjóri og stýrði fundinum af sinni einstöku snilld.

 

Formaður aðalstjórnar Ásgeir Baldurs fór yfir það helsta frá síðasta ári, fundarhöld aðalstjórnar, aðstöðumál deilda, ársþing UMSK og helstu verðlaun sem Blikar hlutu, Íþróttahátíð Breiðabliks og þá sem hlutu verðlaun í hverri deild. Þá fór formaður einnig yfir það helsta frá Íþróttahátíð Kópavogs. 

 

Fjármálastjóri félagsins, Björgvin Smári Kristjánsson, kynnti ársreikning ársins 2022 og samþykktu fundargestir reikninginn einróma.

 

Engar lagabreytingar voru lagðar fram að þessu sinni og var því næst farið í kosningar.  

Ásgeir Baldurs var sá eini sem bauð sig fram til formanns Breiðabliks.

Þrennt var svo í framboði til aðalstjórnar og hafði uppstillingarnefnd tilnefnt fyrir fundinn, eins og lög félagsins segja til um, alla þrjá aðilana til stjórnarsetu enda þrjú sæti laus.

Þremenningarnar eru: Pétur Hrafn Sigurðsson, Rakel Ásgeirsdóttir og Þórólfur Heiðar Þorsteinsson. Þess ber að geta að þau sátu öll í stjórn árið áður og flest meira til.

Fundargestir samþykkti í kjölfarið kosningu formanns og ofangreindra stjórnarmanna.  

 

Aðalfundur samþykkti að fyrirtækið Endurskoðun VSK ehf. yrði endurkjörið endurskoðunarfyrirtæki félagsins og þá voru Steini Þorvalds og Sveinn Gíslason kosnir skoðunarmenn félagsins. 

 

Sólborg Baldursdóttir tók svo til máls en faðir hennar var einn af 70 stofnendum Breiðabliks. Tilefni ávarpsins var stofnbók Breiðabliks sem fannst á dögunum í fórum föðurs Sólborgar. Að ávarpi loknu afhenti Sólborg nýendurkjörnum formanni Breiðabliks, honum Ásgeiri, stofnbókina umtöluðu ásamt skopmynd sem faðir hennar hafði gert. Ásgeir þakkaði Sólborgu kærlega fyrir þessa góðu gjöf og færði henni blóm í þakklætisskyni.

 

Því næst var farið í heiðursveitingar sem voru að þessu sinni 11 talsins og allt silfurblikar, má nánar lesa um það hér fyrir neðan. 

 

Viðurkenningar fyrir silfurblika fengu eftirfarandi: 

  • Auður Ester Guðlaugsdóttir, Karatedeild 
  • Bergþóra Guðjónsdóttir, Frjálsíþróttadeild 
  • Bjarni Bergsson, Knattspyrnudeild 
  • Eiríkur Mörk Valsson, Frjálsíþróttadeild 
  • Elsa Sif Guðmundsdóttir, Frjálsíþróttadeild 
  • Gaukur Garðarsson, Karatedeild 
  • Gunnar Sv. Friðriksson, Körfuknattleiksdeild 
  • Hlöðver Tómasson, Þríþrautardeild 
  • Jóhann Þór Jónsson, Knattspyrnudeild 
  • Kristín Vala Matthíasdóttir, Þríþrautardeild 
  • María Sæmunds Bjarkardóttir, Hjólreiðadeild 

 

Tillaga frá Karate deild var borin upp sem var jafnframt eina tillaga fundarins og var hún samþykkt samhljóma en tillagan var eftirfarandi: að Breiðablik setji á laggirnar vinnuhóp til þess að fara yfir stefnu ÍSÍ og koma með tillögur um aðgerðir sem væri hægt að ráðast í til þess að skapa jákvætt, aðgengilegt og hvetjandi umhverfi fyrir hinsegin fólk. 

 

Góðar umræður sköpuðust um aðstöðumál og annað hjá félaginu. 

Fundarstjóri  sem jafnframt er formaður UMSK tók til máls og fór yfir ársþing UMSK þar sem Breiðablik náði góðum árangri sem er birtingarmynd þess góða starfs sem er í félaginu. Þessi árangur má að miklu leiti rekja til sjálfboðaliða og þakkaði hann öllum fyrir gott starf. 

 

Ásgeir Baldurs átti svo lokaorðin þar sem hann byrjaði á að þakka kærlega fyrir traustið sem honum er sýnt með formannskjörinu og sagði það vera mikinn heiður að vera formaður þessa glæsilega félags. Ásgeir hrósaði svo góðri fundarmætingu, óskaði öllum þeim sem fengu heiðarveitingu til hamingju, þakkaði þeim fyrir vel unnin störf og sleit svo fundinum í kjölfarið.