Meistaramót Íslands innanhúss fór fram í Laugardalshöll dagana 17.-18. febrúar og átti Breiðablik 15 keppendur á mótinu. Okkar fólk gerði sér lítið fyrir og vann til fimm gullverðlauna, sex silfurverðlauna og einna bronsverðlauna á mótinu sem skilaði liðinu 2. sæti í heildarstigakeppninni á eftir FH.

Júlía Kristín Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í 60 m grindahlaupi á tímanum 8,56 sek. sem er bæði nýtt mótsmet og aldursflokkamet í U23, þessu til viðbótar varð Júlía í 2. sæti í langstökki með stökk upp á 5,73 m og í 2. sæti í 60 m hlaupi kvenna á tímanum 7,65 sek. sem var jöfnun á persónulegu meti hennar.

Þorleifur Einar Leifsson varð Íslandsmeistari í langstökki með stökk upp á 6,75 m og Íslandsmeistari í 60 m grindahlaupi á tímanum 8,29 sek sem var jafnframt persónulegt met. Arnar Pétursson varð Íslandsmeistari í 3000 m hlaupi á tímanum 9:05,66 og lenti í 2. sæti í 1500 m hlaupi. Bjarki Rúnar Kristinsson varð Íslandsmeistari í þrístökki með stökk upp á 14,36 m

Guðjón Dunbar Diaquoi lenti í 2. sæti í langstökki og þrístökki með stökk upp á 6,70 m og 13,93 m. Ægir Örn Kristjánsson lenti í 2. sæti í hástökki með stökk upp á 1,82 m og Stefán Kári Smárason lenti í 3. sæti í 1500 m hlaupi á tímanum 4:17,04.

Um leið og við óskum verðlaunahöfum helgarinnar innilega til hamingju viljum við hrósa öllum Blikunum okkar fyrir frábært mót, persónuleg met og keppnisskap upp á tíu.

Áfram Breiðablik – alla daga – alltaf!