Þjálfarar

Aðalþjálfarar

Sigurður Örn Ragnarsson (Þríþraut) sigurdurra@gmail.com

Viðar Bragi Þorsteinsson (Þríþraut) vidarpedia@gmail.com

Hákon Jónsson (Garpar) garpasund@gmail.com

Netfang deildarinnar er thrithraut@breidablik.is

Um þjálfarana:

Viðar Bragi Þorsteinsson hefur verið þjálfari Þríkó frá stofnun og síðan Þríþrautadeildar Breiðabliks. Hann hefur 10 ára þjálfarareynslu og hefur hjálpað 75 manns í gegn um heilan Ironman.

Viðar Bragi er borinn og barnfæddur Reykvíkingur en flutti í Kópavoginn 1999. Hann prófaði ýmsar íþróttagreinar sem barn og unglingur en stundaði ekki neitt að alvöru fyrr en hann fór að æfa hlaup 2008. Hann byrjaði að synda ári seinna, vildi læra það því hann stundaði sjósund. Þá var stutt í þríþrautina og keppti hann fyrst í Kópavogsþrautinni þann 16. Maí 2010.

Viðar er mikill grúskari og lestrarhestur á bækur og rannsóknir tengdar íþróttum og þjálfun. Fátt er honum óviðkomandi í þeim efnum og hefur þetta gefið honum góðan grunn til þess að byggja undir þjálfun sína ásamt því að sækja námskeið hjá Hunter Aller sem er þekktur í þríþrautarheiminum sem faðir watta þjálfunar.

Þegar nokkrir félagar í Kópavogi stofnuðu Þríkó 2011 þá varð Viðar þjálfari félagsins. Þá var ekkert félag með samþætta þríþrautarþjálfun en hann vildi bjóða uppá slíka þjálfun. Þá voru félögin voru meira að bjóða þjálfun fyrir þessar þrjár greinar, sund, hjól og hlaup án þess að heildræn hugsun væri þar að baki. Viðar Bragi hefur sinnt þjálfarastarfi hjá Þríkó síðan það félag var stofnað og þegar Þríkó fór undir hatt Breiðabliks þá hélt Viðar áfram að þjálfa og gerir enn. Hann hefur talsvert einbeitt sér að þjálfun fyrir heilan Ironman og hefur hjálpað 75 manns í gegn um þá þrekraun sem slík keppni er. Hann hefur sjálfur tekið þátt í sjö heilum Ironman keppnum, þar af tvisvar á heimsmeistaramótinu í Kona á Hawai. Hann hefur keppt í ótal mörgum styttri vegalengdum, tvisvar á heimsmeistaramóti áhugamanna og einnig hefur hann tvisvar verið í öðru sæti á Íslandsmóti í Ólympískri þríþraut.

Hákon Jónsson er þjálfari Garpa. Hann er íþróttafræðingur með BSc gráðu frá HR og menntaður ITU Level 1 þjálfari.

Hákon er innfæddur Kópavogsbúi sem stundaði sund sem barn og unglingur en fann þríþrautina þegar frændi hans plataði hann með í Járnmanninn í Kjósinni 2015.

Hákon er afar reynslumikill þjálfari. Hann hefur þjálfað og kennt sund frá árinu 2005. Fyrst hjá Sunddeild Breiðabliks fyrir yngri hópa og síðan þjálfun garpa hjá Breiðabliki frá 2014. Hann var sundþjálfari þríþrautardeildar Breiðabliks 2016-2019. Í dag er hann þjálfari garpanna hjá Breiðabliki. Hann hefur sinnt skólasundi og sundþjálfun Landhelgisgæslunnar sem og sundgreiningum og einkakennslu fyrir allan aldur.

Hákon hefur þrisvar keppt í hálfum Ironman ásamt fjölda styttri keppna.

Sigurður Örn Ragnarsson hefur keppt sem atvinnumaður í þríþraut undanfarin tvö ár með mjög góðum árangri, hann byggir þjálfun sína á eigin reynslu.

Sigurður er fæddur og uppalinn á höfuðborgarsvæðinu en býr nú Í Mosfellsbæ. Hann æfði sund frá 9 ára aldri og þar til hann fann þríþrautina 23 ára. Hann hafði keppt í inni tvíþraut sem haldin var af Ægi3 og náð þar mjög góðum árangri. Þá lá beint við að færa sig í þríþrautina, fyrsta þríþrautarkeppnin hans var 2015.

Sigurður er með meistaragráðu í vélaverkfræði. Hann byggir þjálfun sína á eigin reynslu en honum hefur sjálfum gengið mjög vel í íþróttinni. Hann hefur landað bikar- og Íslandsmeistaratitlum undanfarin tvö ár. Einnig hefur hann keppt talsvert erlendis fyrir Íslands hönd td í WTS í Montreal 2017. Sigurður hefur keppt sem atvinnumaður í hálfum Ironman síðustu tvö sumur, hans besti árangur hingað til er 8. Sæti í heildina af rúmlega 2000 keppendum í hálfum Ironman í Finnlandi 2019.

Sigurður hefur þjálfað í einstökum greinum innan þríþrautarinnar sem og hjóli og hlaupi saman. Hann hefur séð um sundþjálfun hjá Þríþrautardeild Breiðabliks frá 2019.